Skoðun

Skorum betur í húsnæðismálum

Elsa Lára Arnardóttir skrifar
Á síðasta kjörtímabili var unnið að umfangsmiklum aðgerðum í húsnæðismálum. Í þeirri vinnu var m.a. mikið rætt um sérstakar húsnæðisbætur og húsnæðisbætur til námsmanna á aldrinum 15 – 17 ára.  Það var þverpólitísk sátt meðal allra nefndarmanna í velferðarnefnd Alþingis, að frá og með síðustu áramótum væri öllum sveitarfélögum skylt að veita þennan stuðning. Til að koma á móts við þessa skyldu sveitarfélaganna voru 800 milljónir eftir í tekjugrunni þeirra, svo þau gætu sinnt þessu verkefni.

Leiðbeinandi reglur voru jafnframt settar um þennan stuðning, en þær eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi að sveitarfélög skuli veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur. Í öðru lagi að sveitarfélög skuli veita foreldrum eða forsjáraðilum 15 – 17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum vegna náms fjarri lögheimili húsnæðisstuðning. Sá stuðningurinn skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjármanna og ekki yfir 75% af húsnæðiskostnaði vegna leigunnar. Í þriðja lagi skal meta þunga framfærslubyrði einstaklinga sem sækja um sérstakan húsnæðisstuðning og líta til félagslegra aðstæðna. Markmið þessara laga um almennan húsnæðisstuðning og leiðbeinandi reglur um sérstakan húsnæðisstuðning, eru að enginn komi verr út úr nýja kerfinu en því gamla.  

Hins vegar er það svo að þingmenn hafa fengið upplýsingar um að fjöldi einstaklinga er ekki að fá þennan sérstaka húsnæðisstuðning. Vegna þess hef ég kallað eftir fundi í velferðarnefnd Alþingis til að fá frekari upplýsingar um þessi mál. Hef óskað eftir því að Samband Íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar og ráðuneytisins mæti á fund nefndarinnar.

Í störfum þingsins, á Alþingi í dag, skoraði ég jafnframt á félagsmálaráðherra að taka þessi mál til skoðunar. Kalla eftir upplýsingum frá ofangreindum aðilum og kanna með hvaða hætti hægt væri að bregðast við því að fjöldi einstaklinga er ekki að fá þennan sérstaka húsnæðisstuðning. Ég óskaði eftir því að þetta yrði skoðað samhliða þeirri vinnu sem mun eiga sér stað í aðgerðahópi í húsnæðismálum. Sá hópur á að komast að niðurstöðu innan mánaðar.

Elsa Lára Arnardóttir,

þingmaður Framsóknarflokksins




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×