Innlent

Sannleiksnefnd skoði lögreglurannsóknina

Sveinn Arnarsson skrifar
Börn Sævars Ciesielski, Sigurður Sævarsson, Lilja Rún Jensen, Victor Blær Jensen og Hafþór Sævarsson.
Börn Sævars Ciesielski, Sigurður Sævarsson, Lilja Rún Jensen, Victor Blær Jensen og Hafþór Sævarsson. vísir/hanna
Setja þarf upp sannleiksnefnd líkt og í Suður Afríku til að sannleikurinn um rannsókn á Guðmundar- og Geirfinnsmálunum komi fram. Þetta er mat Helga Gunnlaugssonar, prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands. Þar gæfist rannsakendum sem enn eru á lífi tækifæri til að deila sannleikanum um rannsókn málsins.

„Það sjá það allir að pottur hafi verið brotinn í rannsókn málsins og miklar líkur á að hinir dómfelldu verði hreinsaðir af ákærum sínum um mannshvörfin,“ segir Helgi.

„Hins vegar verðum við sem samfélag að fá allt upp á borðið og setja upp sannleiksnefnd líkt og í Suður-Afríku. Það þarf að gerast sem fyrst. Til að geta lokið málinu sómasamlega ætti það að vera næsta skref, að rannsaka rannsókn málsins ofan í kjölinn.“

Endurupptökunefnd ákvað á föstudaginn að taka upp hæstaréttardóminn í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum sem snýr að mannshvörfunum. Hafþór Sævarsson, sonur Sævars Ciesielski, er bæði ánægður og svekktur yfir þeirri niðurstöðu.

„Það er auðvitað stórsigur að málin séu tekin upp aftur eftir öll þessi ár. Vonandi mun Hæstiréttur síðan endanlega hreinsa mannorð þessa fólks fyrir fullt og allt,“ segir Hafþór.

„Það er hins vegar leiðinlegt að endurupptökunefndin hafi ekki tekið Erlu með og mér þykir það fráleitt,“ heldur Hafþór áfram.

„Vonandi fellur það af sjálfu sér á endanum. Það sem skiptir mestu er að brotaviljinn var kerfisins allan tímann. Kerfið ákvað síðan að verja sig með öllum ráðum fyrir því að málin yrðu tekin upp að nýju.“

Settur var á laggirnar starfshópur í ráðherratíð Ögmundar Jónassonar um málið. Starfshópnum var falið að fara yfir málið í heild sinni en sérstaklega þá þætti sem lúta að rannsókninni og framkvæmd hennar á sínum tíma. Ögmundur telur niðurstöður þess hóps, sem skilaði niðurstöðum í mars árið 2013, hafa valdið straumhvörfum í málinu.

„Í niðurstöðum starfshópsins, sem voru afgerandi, segir það hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburður dómfelldu hafi verið óáreiðanlegur,“ segir Ögmundur.

Ráðherrann fyrrverandi bendir á að í niðurstöðum starfshópsins hafi allir sem voru dómfelldir verið nefndir á nafn og framburður þeirra.

„Þess vegna olli það mér vonbrigðum að mál Erlu Bolladóttur hafi verið tekið út. Ég hafði trú a því að mál þeirra allra hefðu öll hangið saman.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×