Handbolti

Bikarkóngurinn Óskar Bjarni: Hefðum getað farið á taugum

Ingvi Þór Sæmundsson í Laugardalshöllinni skrifar
Enginn þjálfari hefur orðið bikarmeistari jafn oft og Óskar Bjarni.
Enginn þjálfari hefur orðið bikarmeistari jafn oft og Óskar Bjarni. vísir/andri marinó
Óskar Bjarni Óskarsson stýrði Val í fimmta sinn til bikarmeistaratitils. Hann er sigursælasti þjálfarinn í sögu bikarkeppninnar og hann var að vonum alsæll eftir sigurinn á Aftureldingu í dag.

„Þetta er alltaf jafn gaman. Ég held að Valur sé búinn að fara 12-13 sinnum í bikarúrslit og unnið 10 sinnum. Það er frábært og mér fannst þessi helgi stórkostleg. Ég vil nota tækifærið og þakka Aftureldingu fyrir frábæran leik,“ sagði Óskar Bjarni.

Valsmenn spiluðu tvo Evrópuleiki í Svartfjallalandi um síðustu helgi og tryggðu sér svo bikarmeistaratitilinn núna um helgina. Óskar Bjarni viðurkennir að hafa haft áhyggjur af því þreytan, sem var augljós gegn FH í gær, mynda segja til sín í dag.

„Ég verð að vera hreinskilinn með það, ég hafði miklar áhyggjur. Evrópuleikirnir voru erfiðir sem og ferðalagið, þeir voru líkamlega sterkir og börðu okkur í spað. Svo var vikan ekkert spes en við erum kannski orðnir reyndari. Við hefðum getað farið á taugum ef við hefðum verið hérna í fyrsta sinn. Það er ótrúlegur karakter í liðinu því mér fannst við vera á síðustu bensíndropunum í gær,“ sagði Óskar Bjarni.

Þjálfarinn hrósaði Josip Juric Grgic sem átti frábæran leik og skoraði 10 mörk.

„Hann er frábær handboltamaður. Hann átti ekki góðan leik í gær og þegar það gerist biður hann okkur þjálfarana afsökunar. Við vorum nokkuð vissir um að hann yrði góður í dag. Fólk gleymir því stundum að hann er bara fæddur árið 1995. Þetta er mikill sigurvegari og hefur styrkt okkur vel,“ sagði Óskar Bjarni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×