Lifandi afturgöngur Stefán Pálsson skrifar 25. febrúar 2017 10:00 Kvagga Samspil vísinda og skáldskapar er flókið og margslungið. Frumlegar uppgötvanir vísindanna eru rithöfundum innblástur, en þeir gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og spinna ævintýralegan söguþráð sem aftur getur orðið kveikjan að nýjum tilraunum vísindamanna. Ótal dæmi má nefna um uppfinningar sem lýst var í skáldskap áður en þær urðu að veruleika. Vísindaskáldskapurinn á sömuleiðis stóran þátt í að móta hugmyndir almennings, raunhæfar jafnt sem fjarstæðukenndar, um möguleika vísinda og tækni. Kvikmyndin um Júragarðinn (e. Jurassic Park), eftir samnefndri sögu Michaels Crichton er dæmi um verk sem tvinnar saman alla fyrrnefnda þætti. Þar segir frá auðkýfingi sem lætur vísindamenn endurskapa risaeðlur með erfðaefni úr blóði þeirra, sem fundið var í meltingarvegi flugna sem fest höfðu í trjákvoðu. Risaeðlurnar voru svo hafðar til sýnis í skemmtigarði, þar sem allt gekk á afturfótunum. Fléttan var snjöll og fangaði huga lesenda, þótt raunsæismenn bendi á að útilokað sé að heillegt erfðaefni geymist í svo langan tíma, þótt það sé varðveitt í steingerðu rafi. Sagan hefur hins vegar reynst hvatning til dáða þeim vísindamönnum sem vilja endurskapa loðfíla sem hjálp erfðatækni, með lífsýnum úr loðfílshræjum sem fundist hafa í sífrera Síberíu. Ef marka má nýlegar fregnir eru þær tilraunir langt á veg komnar og mögulegt að fyrstu loðfílarnir líti dagsins ljós á næstu misserum eftir þúsunda ára aldauða. Læknirinn Crichton sótti hugmyndina að Júragarðinum meðal annars úr smiðju þýsks náttúruvísindamanns, Reinholds Rau. Rau fæddist árið 1932 og hóf þegar á táningsaldri störf við Senckenberg-náttúrugripasafnið í Frankfurt. Sú vinna leiddi hann til Suður-Afríku árið 1951.Fágæt furðuskepna Meðal fjölmargra merkra gripa í eigu Senckenberg-safnins er feldur af hinni útdauðu dýrategund kvagga. Rétt rúmlega tuttugu slíkir feldir eða uppstoppaðar skepnur eru til í veröldinni. Talið er að kvöggur hafi lifað villtar í Afríku til ársins 1878 og fimm árum síðar drapst síðasta dýrið í evrópskum dýragarði. Dýrafræðingar voru hins vegar grandalausir um hið slæma ástand stofnsins og til marks um það var aðeins ein kvagga ljósmynduð, það var kvaggahryssa í dýragarði í Lundúnum árið 1870. Kvöggur voru náskyldar sebrahestum. Höfuðið og fremri hluti líkamans voru alsett röndum, þó ekki svörtum og hvítum heldur brúnum og hvítum. Rendurnar voru sömuleiðis daufari en hjá ættingjum kvöggunnar. Aftari hlutinn var brúnleitur og minnti dýrið því á hálfan sebrahest en hálfan smáhest eða asna. Enn í dag vita náttúrufræðingar ekki með fullri vissu hvernig stendur á röndum sebrahestsins. Sumir telja að rendurnar gegni einhvers konar feluhlutverki og auðveldi skepnunum að leyna sig fyrir rándýrum. Önnur skýring er sú að rendurnar hjálpi dýrunum að bera kennsl á hvert annað og að finna rétta hjörð, en engir tveir sebrahestar hafa nákvæmlega eins rendur. Enn aðrir hallast að því að röndunum sé ætlað að fæla frá flugur sem sjúga blóð, en þekkt er að flugur forðist röndótta fleti. Síðastnefnda tilgátan virðist trúleg ef kvaggan er höfð í huga, því heimkynni hennar voru syðst í Afríku þar sem loftslag er mildara en nær miðbaug og flugnaplágur ekki eins miklar. Þörfin á áberandi röndum um allan líkamann er því ekki sú sama á þeim slóðum. Talið er að stórar hjarðir af kvöggum hafi mátt finna víðs vegar um Suður-Afríku, þar sem dýrin áttu fáa náttúrulega óvini aðra en menn, ljón og hýenur. Með tilkomu hollenskra landnema – Búanna svokölluðu – sem hófu að hreiðra um sig á svæðinu í lok sautjándu aldar, tók hins vegar að halla undan fæti. Búarnir bjuggu yfir skotvopnum og uppgötvuðu skjótt að kvöggurnar voru auðveld bráð og gáfu af sér ágætt kjöt. Stórfelld slátrun átti sér stað sem lauk með útrýmingu dýrategundarinnar á innan við tveimur öldum. Náttúruvísindamenn vöknuðu upp við vondan draum þegar kvaggan var horfin af yfirborði jarðar.En þá kom Reinhold Rau til skjalanna.Nýjar uppgötvanir Ef til vill var það hamurinn af kvöggunni á Senckenberg-safninu sem vakti áhuga unga mannsins á dýrinu útdauða, en hver svo sem ástæðan var sökkti Rau sér í rannsóknir á þeim kvöggu-feldum og beinagrindum sem til voru á víð og dreif um náttúrugripasöfn veraldar. Fljótlega komst hann að þeirri niðurstöðu að hugmyndir náttúrufræðinga um kvöggur væru bjagaðar. Skýringin á því væri meðal annars sú að við uppstoppanir á slíkum dýrum hefðu hamskerar freistast til að nota höfuðkúpur úr hestum eða ösnum, sem gerðu kvöggurnar talsvert frábrugðnar sebrahestum í útliti. Með því að rýna í feldina og bera saman við ýmsar undirtegundir sebrahesta sannfærðist Rau um að kvaggan hefði í raun verið miklu skyldari ættingjum sínum norðar í Afríku en flestir höfðu talið. Framfarir í lífsýnarannsóknum gerðu það síðar unnt að bera saman sýni úr kvöggum og ákveðnum tegundum sebrahesta og finna þannig frekari vísbendingar um skyldleika. Rannsóknir þessar urðu til þess að dýrafræðingar tóku ríkjandi kenningar til endurmats og féllust á að skyldleiki kvöggunnar og annarra sebrahesta hefði verið meiri en gömlu fræðiritin vildu ætla. Rau taldi hins vegar ekki nógu langt gengið. Að hans mati var ekki hægt að tala um kvöggur sem sjálfstæða dýrategund heldur bara annað afbrigði sem þróast hefði með lítillega öðrum hætti. Á grunni þeirrar sannfæringar sinnar taldi Rau að unnt væri að endurheimta kvögguna með kynbótum. Með því að leita uppi sebrahesta með svipuð einkenni og para þá saman mætti rækta upp nýjan stofn og bæta þannig fyrir mistök forfeðranna.Smáhross og úruxar Hugmyndin var ekki fordæmalaus, því á þriðja áratugnum höfðu þýsku bræðurnir Heinz og Lutz Heck gert tilraunir í svipaða veru í Evrópu með bæði hesta og uxa. Bræðurnir freistuðu þess að endurskapa úruxann, sem var risavaxið uxakyn með gríðarmikil horn. Úruxar teljast forfeður nútíma nautgripa, en dóu út snemma á sautjándu öld. Með því að para saman óvenju gildvaxin og stórhyrnd nautgripakyn reyndu þeir að fá út dýr sem sem svipaði til lýsinga og teikninga af úruxum úr fornum ritum. Tilraunir Heck-bræðra til að endurskapa útdautt pólskt smáhestakyn var af sama meiði. Þeir álitu, raunar ranglega, að smáhestar þessir hefðu verið forfeður allra evrópskra hesta og leituðust við að endurgera þá, meðal annars með kynbótum við smágerð hestakyn á borð við íslenska hestinn og þann frá Gotlandi í Svíþjóð. Heck-bræður voru um margt merkir vísindamenn og áttu til að mynda stóran þátt í því að vernda og byggja upp evrópska vísundastofninn. Tilraunirnar til að skapa úruxa og smáhesta hafa þó fengið lakari eftirmæli. Benda gagnrýnendur á að þótt tilraunirnar hafi skilað dýrum sem svipaði í útliti til fyrirmyndanna, þá hafi arfgerð þeirra verið allt önnur og því fráleitt að láta eins og um sömu tegund sé að ræða. Þá varð ekki hjá því komist að kynbótatilraunir þýskra vísindamanna á þessum árum vektu hugrenningatengsl við kynþáttastefnu nasista og hugmyndir þeirra um kynbætur á mönnum. Í ljósi þeirrar sögu allrar, er ekki að undra þótt hugmyndir vísindamanns í Suður-Afríku, sem alinn var upp í Þýskalandi nasismans, um stórfelldar kynbótatilraunir hafi fallið í grýttan jarðveg þegar Reinhold Rau tók að kynna þær upp úr 1970. Hann skellti skollaeyrum við öllum gagnrýnisröddum og reyndi að vekja athygli ráðamanna og fjárfesta á Kvagga-verkefninu, áætlun um að endurskapa kvögguna í lífríki Suður-Afríku. Árið 1987 tókst Rau loks að hrinda verkefninu úr vör í þjóðgarði í Suður-Afríku og þar er það enn í fullum gangi þrátt fyrir fráfall stofnandans árið 2006. Á vefsíðu verkefnisins er hamrað á nánum skyldleika kvöggu og sebrahesta og vissulega hefur aðstandendum tekist nokkuð vel upp, því dýrin í garðinum eru brúnleit og aðeins með rendur á fremri hluta skrokksins. Engu að síður treysta stjórnendurnir sér ekki til að kalla sköpunarverk sitt kvöggu, heldur hafa þeir búið til nýtt heiti: Rau kvagga. Eftir standa svo ótal heimspekilegar vangaveltur um rétt mannsins til að breyta dýrategundum og því hvort hægt sé að tala um að dýrategund sé endursköpuð þótt rækta megi önnur dýr með svipaða útlitseiginleika? Slíkum spurningum eru þó rithöfundarnir oft betri í að svara en líffræðingarnir. Saga til næsta bæjar Mest lesið Hefur grátið óteljandi tárum yfir missinum Lífið Lækaði óvart fimm ára gamla mynd Lífið Kynlífsráðgjafi keypti af prófessornum Lífið Aron Can og fjölskylda í draumkenndu fríi Lífið Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Menning Leikirnir sem beðið er eftir Leikjavísir „Fékk mjög mikið í magann og fór næstum því að grenja“ Lífið Nýársswing með handbremsu Gagnrýni Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Menning Mjög tilfinningaríkt að vera með kraftaverk í höndunum Lífið Fleiri fréttir Gott að sakna en verðum að hugsa í núinu Allt búið hjá Austin og Kaiu Hefur grátið óteljandi tárum yfir missinum Aron Can og fjölskylda í draumkenndu fríi Lækaði óvart fimm ára gamla mynd Kynlífsráðgjafi keypti af prófessornum „Fékk mjög mikið í magann og fór næstum því að grenja“ Peter úr Peter, Paul and Mary látinn Byggir snjóhús en ætlar að verða dýralæknir í framtíðinni Júlí og Ágúst keppa í Söngvakeppninni í febrúar Af og frá að Iceguys taki þátt í Söngvakeppninni Mjög tilfinningaríkt að vera með kraftaverk í höndunum Sex daga ólöglegu „megareifi“ loks lokið Laufey ástfangin í eitt ár Getur enn þann dag í dag ekki horft á barnarúm „En við losnum aldrei við Jón Gunnarsson“ Íris Ósk seldi hönnunarhöllina á 230 milljónir Gervifullnægingar og lélegt kynlíf tilheyri 2024 Opið samband fer úrskeiðis KSI kýlir út í íslenska loftið Benni Boga og Úlla seldu húsið á 219 milljónir Eva og Kári ætla að nýta hverja stund saman Mætti haldast í lokuðu Facebook hópunum Guðmundur í Brim nældi í treyjuna Stjörnulífið: Áramót, kossaflens og þakklátar stjörnur Hafdís leitar að húsnæði Zaldana, Brody, Moore og Culkin meðal sigurvegara kvöldsins Asninn að baki Asna allur Stjörnufans á afmælistónleikum Gunnars Þórðarsonar Sleppti gallabuxunum þegar hann giftist sinni drottningu Sjá meira
Samspil vísinda og skáldskapar er flókið og margslungið. Frumlegar uppgötvanir vísindanna eru rithöfundum innblástur, en þeir gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og spinna ævintýralegan söguþráð sem aftur getur orðið kveikjan að nýjum tilraunum vísindamanna. Ótal dæmi má nefna um uppfinningar sem lýst var í skáldskap áður en þær urðu að veruleika. Vísindaskáldskapurinn á sömuleiðis stóran þátt í að móta hugmyndir almennings, raunhæfar jafnt sem fjarstæðukenndar, um möguleika vísinda og tækni. Kvikmyndin um Júragarðinn (e. Jurassic Park), eftir samnefndri sögu Michaels Crichton er dæmi um verk sem tvinnar saman alla fyrrnefnda þætti. Þar segir frá auðkýfingi sem lætur vísindamenn endurskapa risaeðlur með erfðaefni úr blóði þeirra, sem fundið var í meltingarvegi flugna sem fest höfðu í trjákvoðu. Risaeðlurnar voru svo hafðar til sýnis í skemmtigarði, þar sem allt gekk á afturfótunum. Fléttan var snjöll og fangaði huga lesenda, þótt raunsæismenn bendi á að útilokað sé að heillegt erfðaefni geymist í svo langan tíma, þótt það sé varðveitt í steingerðu rafi. Sagan hefur hins vegar reynst hvatning til dáða þeim vísindamönnum sem vilja endurskapa loðfíla sem hjálp erfðatækni, með lífsýnum úr loðfílshræjum sem fundist hafa í sífrera Síberíu. Ef marka má nýlegar fregnir eru þær tilraunir langt á veg komnar og mögulegt að fyrstu loðfílarnir líti dagsins ljós á næstu misserum eftir þúsunda ára aldauða. Læknirinn Crichton sótti hugmyndina að Júragarðinum meðal annars úr smiðju þýsks náttúruvísindamanns, Reinholds Rau. Rau fæddist árið 1932 og hóf þegar á táningsaldri störf við Senckenberg-náttúrugripasafnið í Frankfurt. Sú vinna leiddi hann til Suður-Afríku árið 1951.Fágæt furðuskepna Meðal fjölmargra merkra gripa í eigu Senckenberg-safnins er feldur af hinni útdauðu dýrategund kvagga. Rétt rúmlega tuttugu slíkir feldir eða uppstoppaðar skepnur eru til í veröldinni. Talið er að kvöggur hafi lifað villtar í Afríku til ársins 1878 og fimm árum síðar drapst síðasta dýrið í evrópskum dýragarði. Dýrafræðingar voru hins vegar grandalausir um hið slæma ástand stofnsins og til marks um það var aðeins ein kvagga ljósmynduð, það var kvaggahryssa í dýragarði í Lundúnum árið 1870. Kvöggur voru náskyldar sebrahestum. Höfuðið og fremri hluti líkamans voru alsett röndum, þó ekki svörtum og hvítum heldur brúnum og hvítum. Rendurnar voru sömuleiðis daufari en hjá ættingjum kvöggunnar. Aftari hlutinn var brúnleitur og minnti dýrið því á hálfan sebrahest en hálfan smáhest eða asna. Enn í dag vita náttúrufræðingar ekki með fullri vissu hvernig stendur á röndum sebrahestsins. Sumir telja að rendurnar gegni einhvers konar feluhlutverki og auðveldi skepnunum að leyna sig fyrir rándýrum. Önnur skýring er sú að rendurnar hjálpi dýrunum að bera kennsl á hvert annað og að finna rétta hjörð, en engir tveir sebrahestar hafa nákvæmlega eins rendur. Enn aðrir hallast að því að röndunum sé ætlað að fæla frá flugur sem sjúga blóð, en þekkt er að flugur forðist röndótta fleti. Síðastnefnda tilgátan virðist trúleg ef kvaggan er höfð í huga, því heimkynni hennar voru syðst í Afríku þar sem loftslag er mildara en nær miðbaug og flugnaplágur ekki eins miklar. Þörfin á áberandi röndum um allan líkamann er því ekki sú sama á þeim slóðum. Talið er að stórar hjarðir af kvöggum hafi mátt finna víðs vegar um Suður-Afríku, þar sem dýrin áttu fáa náttúrulega óvini aðra en menn, ljón og hýenur. Með tilkomu hollenskra landnema – Búanna svokölluðu – sem hófu að hreiðra um sig á svæðinu í lok sautjándu aldar, tók hins vegar að halla undan fæti. Búarnir bjuggu yfir skotvopnum og uppgötvuðu skjótt að kvöggurnar voru auðveld bráð og gáfu af sér ágætt kjöt. Stórfelld slátrun átti sér stað sem lauk með útrýmingu dýrategundarinnar á innan við tveimur öldum. Náttúruvísindamenn vöknuðu upp við vondan draum þegar kvaggan var horfin af yfirborði jarðar.En þá kom Reinhold Rau til skjalanna.Nýjar uppgötvanir Ef til vill var það hamurinn af kvöggunni á Senckenberg-safninu sem vakti áhuga unga mannsins á dýrinu útdauða, en hver svo sem ástæðan var sökkti Rau sér í rannsóknir á þeim kvöggu-feldum og beinagrindum sem til voru á víð og dreif um náttúrugripasöfn veraldar. Fljótlega komst hann að þeirri niðurstöðu að hugmyndir náttúrufræðinga um kvöggur væru bjagaðar. Skýringin á því væri meðal annars sú að við uppstoppanir á slíkum dýrum hefðu hamskerar freistast til að nota höfuðkúpur úr hestum eða ösnum, sem gerðu kvöggurnar talsvert frábrugðnar sebrahestum í útliti. Með því að rýna í feldina og bera saman við ýmsar undirtegundir sebrahesta sannfærðist Rau um að kvaggan hefði í raun verið miklu skyldari ættingjum sínum norðar í Afríku en flestir höfðu talið. Framfarir í lífsýnarannsóknum gerðu það síðar unnt að bera saman sýni úr kvöggum og ákveðnum tegundum sebrahesta og finna þannig frekari vísbendingar um skyldleika. Rannsóknir þessar urðu til þess að dýrafræðingar tóku ríkjandi kenningar til endurmats og féllust á að skyldleiki kvöggunnar og annarra sebrahesta hefði verið meiri en gömlu fræðiritin vildu ætla. Rau taldi hins vegar ekki nógu langt gengið. Að hans mati var ekki hægt að tala um kvöggur sem sjálfstæða dýrategund heldur bara annað afbrigði sem þróast hefði með lítillega öðrum hætti. Á grunni þeirrar sannfæringar sinnar taldi Rau að unnt væri að endurheimta kvögguna með kynbótum. Með því að leita uppi sebrahesta með svipuð einkenni og para þá saman mætti rækta upp nýjan stofn og bæta þannig fyrir mistök forfeðranna.Smáhross og úruxar Hugmyndin var ekki fordæmalaus, því á þriðja áratugnum höfðu þýsku bræðurnir Heinz og Lutz Heck gert tilraunir í svipaða veru í Evrópu með bæði hesta og uxa. Bræðurnir freistuðu þess að endurskapa úruxann, sem var risavaxið uxakyn með gríðarmikil horn. Úruxar teljast forfeður nútíma nautgripa, en dóu út snemma á sautjándu öld. Með því að para saman óvenju gildvaxin og stórhyrnd nautgripakyn reyndu þeir að fá út dýr sem sem svipaði til lýsinga og teikninga af úruxum úr fornum ritum. Tilraunir Heck-bræðra til að endurskapa útdautt pólskt smáhestakyn var af sama meiði. Þeir álitu, raunar ranglega, að smáhestar þessir hefðu verið forfeður allra evrópskra hesta og leituðust við að endurgera þá, meðal annars með kynbótum við smágerð hestakyn á borð við íslenska hestinn og þann frá Gotlandi í Svíþjóð. Heck-bræður voru um margt merkir vísindamenn og áttu til að mynda stóran þátt í því að vernda og byggja upp evrópska vísundastofninn. Tilraunirnar til að skapa úruxa og smáhesta hafa þó fengið lakari eftirmæli. Benda gagnrýnendur á að þótt tilraunirnar hafi skilað dýrum sem svipaði í útliti til fyrirmyndanna, þá hafi arfgerð þeirra verið allt önnur og því fráleitt að láta eins og um sömu tegund sé að ræða. Þá varð ekki hjá því komist að kynbótatilraunir þýskra vísindamanna á þessum árum vektu hugrenningatengsl við kynþáttastefnu nasista og hugmyndir þeirra um kynbætur á mönnum. Í ljósi þeirrar sögu allrar, er ekki að undra þótt hugmyndir vísindamanns í Suður-Afríku, sem alinn var upp í Þýskalandi nasismans, um stórfelldar kynbótatilraunir hafi fallið í grýttan jarðveg þegar Reinhold Rau tók að kynna þær upp úr 1970. Hann skellti skollaeyrum við öllum gagnrýnisröddum og reyndi að vekja athygli ráðamanna og fjárfesta á Kvagga-verkefninu, áætlun um að endurskapa kvögguna í lífríki Suður-Afríku. Árið 1987 tókst Rau loks að hrinda verkefninu úr vör í þjóðgarði í Suður-Afríku og þar er það enn í fullum gangi þrátt fyrir fráfall stofnandans árið 2006. Á vefsíðu verkefnisins er hamrað á nánum skyldleika kvöggu og sebrahesta og vissulega hefur aðstandendum tekist nokkuð vel upp, því dýrin í garðinum eru brúnleit og aðeins með rendur á fremri hluta skrokksins. Engu að síður treysta stjórnendurnir sér ekki til að kalla sköpunarverk sitt kvöggu, heldur hafa þeir búið til nýtt heiti: Rau kvagga. Eftir standa svo ótal heimspekilegar vangaveltur um rétt mannsins til að breyta dýrategundum og því hvort hægt sé að tala um að dýrategund sé endursköpuð þótt rækta megi önnur dýr með svipaða útlitseiginleika? Slíkum spurningum eru þó rithöfundarnir oft betri í að svara en líffræðingarnir.
Saga til næsta bæjar Mest lesið Hefur grátið óteljandi tárum yfir missinum Lífið Lækaði óvart fimm ára gamla mynd Lífið Kynlífsráðgjafi keypti af prófessornum Lífið Aron Can og fjölskylda í draumkenndu fríi Lífið Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Menning Leikirnir sem beðið er eftir Leikjavísir „Fékk mjög mikið í magann og fór næstum því að grenja“ Lífið Nýársswing með handbremsu Gagnrýni Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Menning Mjög tilfinningaríkt að vera með kraftaverk í höndunum Lífið Fleiri fréttir Gott að sakna en verðum að hugsa í núinu Allt búið hjá Austin og Kaiu Hefur grátið óteljandi tárum yfir missinum Aron Can og fjölskylda í draumkenndu fríi Lækaði óvart fimm ára gamla mynd Kynlífsráðgjafi keypti af prófessornum „Fékk mjög mikið í magann og fór næstum því að grenja“ Peter úr Peter, Paul and Mary látinn Byggir snjóhús en ætlar að verða dýralæknir í framtíðinni Júlí og Ágúst keppa í Söngvakeppninni í febrúar Af og frá að Iceguys taki þátt í Söngvakeppninni Mjög tilfinningaríkt að vera með kraftaverk í höndunum Sex daga ólöglegu „megareifi“ loks lokið Laufey ástfangin í eitt ár Getur enn þann dag í dag ekki horft á barnarúm „En við losnum aldrei við Jón Gunnarsson“ Íris Ósk seldi hönnunarhöllina á 230 milljónir Gervifullnægingar og lélegt kynlíf tilheyri 2024 Opið samband fer úrskeiðis KSI kýlir út í íslenska loftið Benni Boga og Úlla seldu húsið á 219 milljónir Eva og Kári ætla að nýta hverja stund saman Mætti haldast í lokuðu Facebook hópunum Guðmundur í Brim nældi í treyjuna Stjörnulífið: Áramót, kossaflens og þakklátar stjörnur Hafdís leitar að húsnæði Zaldana, Brody, Moore og Culkin meðal sigurvegara kvöldsins Asninn að baki Asna allur Stjörnufans á afmælistónleikum Gunnars Þórðarsonar Sleppti gallabuxunum þegar hann giftist sinni drottningu Sjá meira