Innlent

Telur ólíklegt að málið upplýsist nokkurn tímann

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Þetta er eiginlega síðasti spölurinn á langri leið. Hún hefur verið löng. Þetta hefur verið mér til vandræða alla tíð síðan,“ segir Guðjón Skarphéðinsson, sem dæmdur var í 10 ára fangelsi fyrir aðild sína að Guðmundar- og Geirfinnsmálunum svonefndu.

Endurupptökunefnd heimilaði í dag að mál fimm sakborninga af sex verði tekin upp að nýju. Nánast slétt 37 ár eru frá því að Hæstiréttur kvað upp þunga dóma yfir þeim, en það var föstudaginn 22. febrúar 1980. Sakborningarnir hafa ætíð haldið fram sakleysi sínu.

Guðjón segist telja ólíklegt að Guðmundur Einarsson og Geirfinnur Einarsson finnist nokkurn tímann. Þeir hurfu sporlaust árið 1974. Mennirnir tveir þekktust ekki í lifanda lífi en mál þeirra voru spyrt saman eftir að þeir hurfu. Um er að ræða eitt umdeildasta sakamál Íslandssögunnar.

„Ég er eiginlega orðinn algjörlega vondaufur um að það komi nokkurn tímann fram. Því að því meira sem rótað er í þessu og leitað að þeim þeim mun minna kemur fram og þeim mun óskiljanlegra verður þetta allt saman. Og gjörsamlega óútskýrt. Sérstaklega Guðmundarmálið, það virðist einhvern veginn gjörsamlega gufa upp í höndunum á manni. En sem betur fer höfum við lært töluvert af þessari reynslu sem var dýrkeypt á sínum tíma. Og höfðum sett ýmislegt í gang til að koma í veg fyrir að svona geti gerst aftur á þessu landi,“ segir Guðjón og vísar þar í þá meðferð sem hann fékk bæði við meðferð málsins og í fangelsinu.

Rætt verður ítarlega við Guðjón í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18.30.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×