Lífið

Lætur efniviðinn ráða ferðinni

Guðný Hrönn skrifar
Helga Sif lærði í bæði LHÍ og í Konstfack-listaakademíunni í Stokkhólmi.
Helga Sif lærði í bæði LHÍ og í Konstfack-listaakademíunni í Stokkhólmi.
Helga Sif Guðmundsdóttir myndhöggvari færði út kvíarnar árið 2014 og hóf að hanna skartgripi. Nýverið sendi hún frá sér sína aðra skartgripalínu sem er náskyld myndlist hennar.

Hugmyndafræðin er sprottin úr myndlistarverkum mínum en þar geng ég alltaf fyrst út frá efninu og læt eðli þess móta og forma verkið,“ segir Helga aðspurð út í nýju línuna sem unnin er úr brassi og ferskvatnsperlum. „Í myndlistinni og skartgripahönnuninni vinn ég fyrst og fremst með efni og virkni þess. Sú hugsun og vinnubrögð sem ég hef tileinkað mér í myndlistinni nýtist mér í allri sköpun. Ég hef ákveðið að leyfa þessu að flæða inn í hvort annað í stað þess að aðgreina og setja í hólf eins og manni er oft tamt. Ég lít svo á að öll sköpun næri aðra sköpun,“ útskýrir Helga Sif.

„Ég vinn skartið með einfaldleika að leiðarljósi og það er fyrst og fremst sjálf keðjan sem er upphafið að mótun og endanlegu formi skartsins. Ég vil helst komast upp með að nota sem fæst hráefni og láta þau sem ég nota hverju sinni njóta sín sem best,“ segir hún.

Helga Sif sækir innblástur í textílhefðir, bæði í myndlist sinni og í skartgripahönnun. „Já, innblásturinn kemur í gegnum textílhandverk af ýmsum toga en einnig náttúrunni. Og síðan má ekki gleyma byggingavörubúðum, smiðjum og smíðaverkstæðum,“ segir Helga sem fær greinilega innblásturinn úr öllum áttum.

Helga Sif er með skartið sitt til sölu í versluninni Hlín Reykdal Stúdíó og þar verður hún með innsetningu á HönnunarMars. „Þá ætla ég að vinna verk í verslunarrýmið þannig að ég mun láta myndlistina og skartið flæða saman í eitthvað skemmtilegt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×