Viðskipti innlent

Gæti þurft að stöðva rekstur United Silicon

Haraldur Guðmundsson skrifar
Kísilver United Silicon í Helguvík var gangsett í nóvember.
Kísilver United Silicon í Helguvík var gangsett í nóvember. Vísir/Vilhelm
Starfsmenn Umhverfisstofnunar telja nauðsynlegt að ráðist verði í verkfræðilega úttekt á hönnun og rekstri kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík. Ástæðu þess má rekja til tíðra mengunaróhappa í rekstri verksmiðjunnar. Svo gæti farið að stöðva þurfi reksturinn tímabundið og framkvæma nauðsynlegar úrbætur.

Víkurfréttir greindu fyrst frá og vitnuðu í bréf sem Umhverfisstofnun sendi forsvarsmönnum verksmiðjunnar í gær og fjölmiðlum nú seinni partinn. Samkvæmt því hefur stofnunin gefið forsvarsmönnum United Silicon frest til 7. mars til að koma sjónarmiðum fyrirtækisins á framfæri.

Verksmiðjan var gangsett í nóvember og í kjölfarið fóru að berast kvartanir frá íbúum í Reykjanesbæ vegna lyktar- og reykmengunar. Lyktinni er lýst sem súrri brunalykt sem getur valdið ertingu í augum og hálsi. Hefur Umhverfisstofnun borist vel á annað hundrað ábendinga um lyktarmengun og skráð hjá sér fjölmörg frávik frá starfsleyfi í eftirlitsferðum. Í bréfinu segir að umfang Umhverfisstofnunar í eftirliti gagnvart verksmiðjunni sé fordæmalaust.

„Umhverfisstofnun telur miðað við þau umfangsmiklu og endurteknu rekstrarvandamál sem upp hafa komið frá gangsetningu verksmiðjunnar að hönnun, verklagi og þjálfun starfsfólks sé ábótavant í verksmiðjunni. [...] Stofnunin telur að vandamálið sé viðvarandi," segir í bréfinu. Þar segir einnig að stofnunin fari fram á að einungis einn ljósbogaofn verði keyrður í verksmiðjunni á meðan á úrbótum stendur en United Silicon hefur leyfi fyrir fjórum samkvæmt starfsleyfi. 

 


Tengdar fréttir

Íbúafundur vegna mengunar

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur ákveðið að boða til íbúafundar vegna loftmengunar frá kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×