Skoðun

Star Wars voru frábær kaup

Björn Berg Gunnarsson skrifar
George Lucas fékk hátt í 500 milljarða króna í vasann þegar hann seldi Lucasfilm til Disney. Ríflega fjórum árum síðar er komin ágætis reynsla á yfirtökuna og virðist Disney hafa gert afar góð kaup.

Marvel og Pixar settu tóninn

Star Wars smellpassar í viðskiptalíkan Disney. Þar á bæ er leitað að vörumerkjum sem hægt er að nýta í hinum fjölmörgu dreifileiðum fyrirtækisins, svo sem í kvikmyndahúsum, skemmtigörðum, sjónvarpsstöðvunum ABC og Disney Channel, leikfanga- og fataverslunum og tölvuleikjum. Þar liggja tækifærin og reynslan af slíkum viðskiptum er góð. Myndasöguframleiðandinn Marvel er endalaus uppspretta efnis sem og Pixar, sem var einmitt upphaflega stofnað af Lucas.

Disney getur gert meira úr Star Wars en Lucas gat gert sjálfur, nóg er að bera saman umfang kynningar Star Wars Episode I, II og III í kringum aldamótin og tveggja síðustu mynda. En þetta er bara rétt að byrja. Talað er um að ný kvikmynd verði gefin út árlega og brátt munum við geta lifað okkur enn betur inn í hugarheim Lucas því tveir Star Wars Land skemmtigarðar verða opnaðir við garða Disney í Kaliforníu og Flórída eftir tvö ár.

Hluthafarnir kætast

Þegar George Lucas tók við 500 milljörðunum sínum árið 2012 virtist hann hafa dottið í lukkupottinn en segja má að hluthafar Disney svamli þar með honum þar sem hlutabréfaverðið hefur frá þeim tíma ríflega tvöfaldast.

Fimm söluhæstu kvikmyndir síðasta árs voru allar í nafni Disney og þar sem Rogue One: A Star Wars Story skilaði framleiðslukostnaði fimmfalt til baka í bíóhúsum lítur út fyrir að nýjar kynslóðir fái að kynnast Han Solo og Boba Fett um ókomna tíð og reyndar bláa fílnum og Jar Jar Binks líka.

Greinin birtist í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×