Viðskipti innlent

Hlutabréf í Icelandair ekki lægri í hátt í fjögur ár

Haraldur Guðmundsson skrifar
Velta með bréf Icelandair Group nam 127 milljónum króna.
Velta með bréf Icelandair Group nam 127 milljónum króna. Vísir/Vilhelm
Gengi hlutabréfa í Icelandair Group hefur ekki verið lægra en það var við lokun markaða í dag síðan 29. júlí 2013. Bréfin lækkuðu í verði um eitt prósent í dag og nam gengi þeirra þá 13,94 krónum á hlut og markaðsvirði félagsins því um 69,7 milljarðar.

Hlutabréf í flugfélaginu hafa því lækkað um 64 prósent síðan í apríl í fyrra en markaðsvirðið nam þá 193 milljörðum króna. Gengi bréfanna var 22,1 króna á hlut í lok janúar eða daginn áður en félagið sendi frá sér svarta afkomuviðvörun sem leiddi til mikilla verðlækkana sem enn sér ekki fyrir endann á.

Af öðrum félögum á Aðallista Kauphallar Íslands lækkuðu bréf Sjóvár um 0,5 prósent í dag. Síminn lækkaði um 0,3 prósent og verslunarfyrirtækið Hagar um 0,1 prósent. Stoðtækjaframleiðandinn Össur var hástökkvari dagsins en bréf félagsins hækkuðu um 3,9 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×