Viðskipti innlent

Breska Domino's eignast ráðandi hlut í íslensku pítsukeðjunni

Haraldur Guðmundsson skrifar
Birgir Þór Bieltvedt, fjárfestir og einn eigenda Domino's á Íslandi og í Skandinavíu.
Birgir Þór Bieltvedt, fjárfestir og einn eigenda Domino's á Íslandi og í Skandinavíu.
Domino‘s á Bretlandi (Domino‘s Pizza Group) mun yfirtaka eignarhlut Domino‘s á Íslandi í rekstri pítsustaðakeðjunnar í Skandinavíu. Þar að auki mun breska félagið eignast á næstunni tveggja prósenta hlut í Domino‘s á Íslandi og þá eiga 51 prósent í fyrirtækinu eða ráðandi hlut.

Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins. Ekki kemur fram hvenær gert sé ráð fyrir að viðskiptin klárist en að hluti þeirra sé háður samþykki Seðlabanka Íslands. Birgir Þór Bieltvedt, einn eigenda Domino‘s á Íslandi, segir breska félagið hafa boðið gott verð fyrir bréfin og að íslenskir hluthafar hafi margfaldað fjárfestingu sína í Skandinavíu frá 2014.  

„Að sama skapi fóru Bretarnir fram á það að eignast tveggja prósenta hlut á Íslandi og verða þar með ráðandi hluthafar með 51 prósent. Þetta stóð alltaf til hvort sem er en er þó að gerast nokkuð hraðar en við höfðum ætlað en að sama skapi er þetta mjög jákvæð þróun sem mun skapa gríðarleg tækifæri fyrir hópinn innan keðju Domino‘s í Englandi sem á einnig stóran hluta Dominio‘s í Þýskalands, Sviss og á fleiri mörkuðum,“ segir Birgir í samtali við Viðskiptablaðið.

Domino‘s Pizza Group keypti í júní í fyrra hlut í rekstri í rekstri Domino‘s á Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Kaupverðið var sagt vera 24 milljónir punda. Það jafngilti þá rúmum fjórum milljörðum króna. Kom þá fram að breska fyrirtækið, sem er skráð í bresku kauphöllina, ætlaði sér með fjárfestingunni að taka þátt í fyrirhugaðri uppbyggingu Domino‘s keðjunnar á Norðurlöndunum. Sérleyfi fyrir rekstri Domino‘s staða í Noregi, Svíþjóð og Færeyjum er í eigu íslenska fyrirtækisins Pizza-Pizza ehf.

Framtakssjóðurinn EDDA, sem rekinn er af verðbréfafyrirtækinu Virðingu, keypti fjórðungshlut í Domino‘s á Íslandi í mars 2015 en EDDA er í eigu nokkurra lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta. EDDA seldi í júní, líkt og aðrir íslenskir hluthafar, part af sínum hlut í fyrirtækinu til Domino‘s Pizza Group í viðskiptunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×