Erlent

Æfðu árásir á herstöðvar Bandaríkjanna í Japan

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un fylgdist með skotunum.
Kim Jong Un fylgdist með skotunum.
Ríkisfjölmiðill Norður-Kóreu, KCNA, segir tilraunaskot fjögurra eldflauga í átt að Japan um helgina hafa verið æfingu fyrir árás á bandarískar herstöðvar í Japan. Þrjár af fjórum eldflaugum lentu í sjónum um 300 kílómetra frá ströndum Japan. Kim Jong Un, einræðisherra landsins, fylgdist með skotunum.

Yfirvöld í Japan og í Bandaríkjunum hafa kallað eftir fundi öryggsiráðs Sameinuðu þjóðanna, en eldflaugaskot Norður-Kóreu eru brot á ályktunum ráðsins. Samkvæmt Sky News er reiknað með því að fundað verði á morgun.

Norður-Kórea hefur á undanförnum árum unnið hörðum höndum að því að þróa kjarnorkuvopn og eldflaugar sem geta borið slík vopn um langar vegalengdir. Fjölmörgum og umfangsmiklum viðskiptaþvingunum hefur verið beitt gegn ríkinu til að hægja á tilraununum.

Vísir/GraphicNews
Þrátt fyrir það virðist ríkið hafa náð árangri í vopnaáætlun sinni.

Sjá einnig: Skutu fjórum eldflaugum langleiðina til Japan

Í kjölfar tilraunaskotanna um helgina hafa Bandaríkin flýtt uppsetningu háþróaðs eldflaugavarnakerfis í Suður-Kóreu. Um er að ræða svokallað Thaad-kerfi en stjórnvöld Kína hafa mótmælt þeim ætlunum harðlega.

Kínverjar segja varnarkerfið ná langt inn á svæði þeirra og að það muni gjörbylta jafnvægi svæðisins. Samkvæmt frétt BBC er uppsetning Thaad-kerfisins þegar hafin og vonast er til þess að vinnunni verði lokið í apríl.

Ekki væri hægt að nota Thaad-kerfið til að skjóta niður eldflaugar sem skotið væri frá Kína til Bandaríkjanna, ef ríkin stæðu í hernaði. Hins vegar myndi kerfið mögulega veita Bandaríkjamönnum mikinn fyrirvara um eldflaugaskot Kínverja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×