Erlent

Þveröfugar afleiðingar verndaraðgerða

Tollayfirvöld í Manila, höfuðborg Filippseyja, stöðvuðu sendingu af nashyrningshornum á dögunum.
Tollayfirvöld í Manila, höfuðborg Filippseyja, stöðvuðu sendingu af nashyrningshornum á dögunum. vísir/epa
Aðgerðir dýraverndarsinna til verndar dýrum í útrýmingarhættu gætu í raun skapað dýrunum meiri hættu. Veiðiþjófar hafa nýtt sér upplýsingar úr staðsetningartækjum dýra til að hafa upp á þeim og fella. Sunday Times segir frá. 

Sendum og staðsetningartækjum hefur verið komið fyrir á mörgum tegundum sem eru eftirsóttar af veiðiþjófum. Má þar nefna nashyrninga og Bengal-tígra. Upplýsingar um staðsetningu dýranna hafa vísindamenn notað til að fylgjast með hegðun þeirra og lífi. Er það von vísindamannanna að hægt sé að nota upplýsingarnar til að viðhalda stofnunum og snúa þróuninni við.

Óprúttnir aðilar hafa móttekið gögn frá sendunum og nýtt gögnin til þveröfugra aðgerða. Hægt er að móttaka merki ódýrustu sendanna með einföldum loftnetum. Aðrir sendar senda merki í gervihnött sem síðan sendir upplýsingar í tölvupósti til rannsakenda. Dæmi eru um að tölvuþrjótar hafi reynt að brjótast inn í pósthólf í þeirri von að komast yfir gögn þaðan.

Afurðir veiðiþjófnaðar eru gífurlega eftirsóttar en áætlað er að veltan á markaðnum sé um 15 milljarðar punda á ári eða tæpar tvær billjónir íslenskra króna. Til dæmis er áætlað að verð á nashyrningshorni sé minnst 50 þúsund pund eða rúmlega 6,5 milljónir íslenskra króna. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×