Skoðun

Áhætta á kostnað almennings

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins liggja drög að endurskoðaðri eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í stefnunni er ekkert rætt um breytt skipulag bankakerfisins til hagsbóta fyrir almenning. Þó er tækifæri til þess einmitt nú þegar ríkið á stærsta hluta bankakerfisins. Allt á að selja nema minnihluta (34-40%) í Landsbankanum. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að allar fjármálastofnanirnar verði óbreyttar og haldi áfram í sömu mynd og þær eru í dag og engin merki um að ríkið leggi áherslu á breytta menningu eða siðferði innan kerfisins frá því sem var fyrir hrun. Við horfum á nánast sama bankakerfið og fyrir hrun og sömu áhættu á herðum almennings. Mér finnst það algjörlega óásættanlegt.

Ríkið á þvert á móti að beita eigendaáhrifum sínum í bönkunum til þess að stuðla að heppilegri þróun á fjármálamarkaði og það á að fara í þá vinnu strax. Nú eru vogunarsjóðir líklega að eignast fyrsta eignarhlutinn sem er seldur í banka eftir að samið var við kröfuhafa. Hverjir eru eigendur þessara vogunarsjóða? Er það virkilega stefna nýrrar ríkisstjórnar að hér verði nánast sama bankakerfi og fyrir hrun með vogunarsjóði í broddi fylkingar? Á að endurtaka sömu mistök og við síðustu einkavæðingu?

Bankakerfið verður að geta staðið af sér fjármálaáföll. Framtíðarskipan þess þarf að miða að því að kerfið verði öruggt, skilvirkt og hæfilega umfangsmikið með ódýrri sjálfsagðri þjónustu við fólk og fyrirtæki. Sparifjáreigendur hafa ekki veð í bönkunum en verða að geta treyst því að sparifé þeirra sé öruggt og aðgengilegt til að greiða með regluleg útgjöld.

Hagur almennings er best varinn með því að fjárfestingabankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi verði aðskilin. Fjárfestar sem njóta alls ávinnings af áhættu ef vel tekst til, eiga líka að bera allan kostnað þegar verr gengur. Honum má ekki velta yfir á almenning.

Við eigum alls ekki að selja bankana frá okkur núna í óbreyttri mynd, heldur nýta tækifærið til að bæta bankakerfið til hagsbóta fyrir almenning.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×