Skoðun

Efnahags- og viðskiptanefnd kemur að borðinu

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Fjármálakerfið á að styðja við hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu, en ekki vera eingöngu til fyrir sjálft sig. Stjórnvöld eru í einstakri stöðu til að búa svo um hnútana að fjármálakerfið tryggi hagsæld í landinu. Ekki aðeins getur ríkisvaldið mótað lagaumgjörð fjármálafyrirtækja, heldur geta stjórnvöld gripið til beinna aðgerða í ljósi umfangsmikils eignarhalds á stærstu fjármálafyrirtækjum landsins.

Fjármála- og efnahagsráðherra birti nýverið drög að eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins. Í henni er aðallega fjallað um vilja hins opinbera til að selja hlut sinn, en engin framtíðarsýn er sett fram fyrir fjármálakerfið í heild. Ríkissjóður ráðgerir að eiga 34-40% eignarhlut í Landsbankanum hf. til langframa, en selja allan eignarhlut sinn í Íslandsbanka og Arion banka þegar aðstæður leyfa.

Hér þarf að staldra við, því áður en kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki verða selda þurfum við að meta hvernig fjármálakerfi hentar best íslenskum aðstæðum. Við eigum að; 1) skoða heildarstærð bankakerfisins, hvort hægt sé að hagræða og þá lækka þjónustugjöld og vaxtakostnað, 2) meta hversu stór eignarhlutur ríkissjóðs á að vera í fjármálafyrirtækjum til skemmri og lengri tíma litið, 3) meta hvort og þá með hvaða hætti eigi að skilja að viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi, 4) meta hvort dreift eignarhald eða samþjappað þjóni hagkerfinu best til lengri tíma litið og 5) skoða hvernig bankakerfið geti miðlað erlendri lánsfjármögnun í samkeppni við erlenda banka. Í þessari mikilvægu vinnu er brýnt að líta til alþjóðlegrar þróunar og taka mið af reynslu annarra þjóða.

Í umræðum á Alþingi í upphafi vikunnar lagði ég áherslu á mikilvægi þess að ráðast í heildarendurskoðun á fjármálakerfinu áður en sala ríkiseigna hæfist. Víðtæk sátt virðist vera um slíka endurskoðun innan efnahags- og viðskiptanefndar er samstaða um að taka málið að sér og vinna vegvísi að framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar. Það er fagnaðarefni að löggjafinn hafi tekið að sér það mikilvæga hlutverk á fyrstu stigum málsins. Fólkið í landinu á skilið að vandað verði til verka.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×