Viðskipti innlent

Stefna stjórnvalda varðandi aflandskrónueigendur óbreytt

Haraldur Guðmundsson skrifar
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra Vísir/Ernir
Ekki kemur til greina að hleypa aflandskrónueigendum úr landi ef sú aðgerð kemur í veg fyrir fullt afnám gjaldeyrishafta. Engar áherslubreytingar hafa orðið með nýrri ríkisstjórn varðandi losun hafta og uppgjör við kröfuhafa.

Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra á Alþingi í morgun. Bjarni svaraði þar Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma. Þar vísaði Sigmundur í frétt Markaðarins um að til standi að semja við þá bandaríska fjárfestingarsjóði, aflandskrónueigendur sem ekki vildu taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans í júní 2016, um að hleypa þeim út úr höftum fyrr en áformað var.

„Við ætlum ekki að fórna neinu til­ þess að gera þessum aðilum mögu­legt að kom­ast út úr land­inu með sínar eignir ef að það þýðir á ein­hvern hátt að eftir sitji allur almenn­ing­ur, fyr­ir­tækin í þessu landi, sveit­ar­stjórnir og aðr­ir, líf­eyr­is­sjóð­ir, í höftum með ein­hvern vanda. Um þetta hefur málið snú­ist allan tím­ann,“ sagði Bjarn­i á Alþingi og ítrekaði að engin stefnubreyting hefði orðið með nýrri ríkisstjórn.

Í frétt Markaðarins kom fram að stjórnvöld eiga í viðræðum við fulltrúa bandarískra fjárfestingarsjóða, sem eiga samanlagt vel yfir hundrað milljarða í aflandskrónum til að kanna grundvöll að samkomulagi sem myndi gera þeim kleift að flytja eignir sínar úr landi í skiptum fyrir gjaldeyri. Það yrði þá á umtalsvert hagstæðara gengi fyrir fjárfestingarsjóðina – mögulega á genginu 130 til 140 krónur gagnvart evru – en stjórnvöld voru reiðubúin að samþykkja í viðræðum við sömu sjóði í fyrra. Gengi krónunnar gagnvart evru hefur styrkst um liðlega 20 prósent frá útboði Seðlabankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×