Lífið

Stjörnurnar styðja Hildi í hljóð­blöndunar­málinu: „Rosa­lega hvim­leitt og sárt“

Birgir Olgeirsson skrifar
„Þetta verður alltaf svo persónulegt,“ segir tónlistarmaður Friðrik Ómar Hjörleifsson sem er einn þeirra sem hefur blandað sér í þá miklu umræðu sem hefur skapast eftir að tónlistarkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir sendi formlega kvörtun til Ríkisútvarpsins í gær.

Hildur er afar ósátt hvernig staðið var að hljóðblöndun á lagi hennar Bammbaramm á fyrra undankvöldi Söngvakeppni Sjónvarpsins síðastliðið laugardagskvöld. Hildur sagði undirspil lagsins hafa verið of lágt í sjónvarpsútsendingunni og því hafi flutningur hennar ekki skilað sér til áhorfenda.

Lagið var ekki eitt þeirra þriggja sem komust áfram í úrslit og voru nokkrir sem höfðu orð á því í athugasemdakerfum við fréttir af málinu að það hefði ekki verið hljóðblönduninni að kenna heldur laginu sjálfu.

Friðrik fagnar umræðunni

Friðrik Ómar var einn þeirra sem kom Hildi til varnar í athugasemdakerfum en hann sagði í athugasemd við Facebook-færslu Vísis, þar sem vísað er í frétt af málinu, að honum hefði þótt lagið skemmtileg en það hafi ekkert með málið að gera. Skoðun fólks á laginu á ekki heima í umræðu um mistök við hljóðblöndun í beinni útsendingu.

Í samtali við Vísi segist Friðrik fagna þessari umræðu. „Þetta kemur því ekkert við hvort hún komst áfram eða ekki. Ef fólk hlustar á upptökuna frá kvöldinu heyrir það alveg að þetta gæti verið betra og við hljótum öll að vilja hafa þetta betra. Þetta er stærsta söngvakeppnin á landinu og við eigum að hafa bestu aðstæður sem hægt er að hafa,“ segir Friðrik.

Friðrik er einn af færustu söngvurum landsins, með mikla reynslu af Söngvakeppninni og Eurovision og öflugur tónleikahaldari.

Friðrik segist viss að RÚV vilji skapa bestu aðstæður sem hægt er að hafa þegar kemur að Söngvakeppni Sjónvarpsins.

„Það er bara spurning hvort það sé ekki hægt að bæta þetta. Eftir þessa umræðu sérstaklega, sem maður fagnar, þá hljóta þeir að taka þetta til skoðunar og reyna að bæta þetta,“ segir Friðrik en Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarps, sagði við Vísi fyrr í vikunni að í hvert sinn sem starfsfólk RÚV fær athugasemd um hljóðblöndun eða verður vart við að að eitthvað var ekki eins og það á að vera sé reynt að gera betur.

Hljóðmenn sammála um að það hefði mátt gera betur

Friðrik segir alla sem taka þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins vera búna að æfa atriðið sitt og leggja rosalega mikinn tíma í það í nokkra mánuði.

„Það er því rosalega hvimleitt og sárt að þetta skili sér ekki eins og vonir stóðu til í útsendingunni og það er eitthvað sem þarf að bæta. Ég hef heyrt í nokkrum hljóðmönnum og þeir eru sammála að það hefði verið hægt að gera þetta betur, ekki spurning,“ segir Friðrik.

„En það skiptir ekki máli hvort lagið sé gott eða ekki eins og fólkið var að tala um, það er enginn að tala um það.“

Sýna Hildi stuðning

Hildur Kristín tjáði sig frekar um málið á Facebook eftir að hafa sagt sína hlið í samtali við Vísi í gær en þar sagði hún leiðinlegt að vinna síðustu mánuða hafi endað svona hrikalega flöt og óspennandi í sjónvarpinu.

„Og fá komment um að ég sé bara “vonlaus live”, “hryllingur” og “ekki nógu góð söngkona”. Þetta er vinnan mín, ég set allt mitt hjarta í þetta (og í þetta sinn líka risastórt ljósahjarta) ég tek þessu mjög alvarlega og ég skal bjóða öllum þeim sem segja að ég sé lélegur performer á næstu tónleika með mér,“ sagði Hildur á Facebook.

Fjöldi tónlistarfólks blandar sér í umræðuna við Facebook-færslu Hildar.

„Stattu á þínu,“ segir söngkonan Elísabet Ormslev sem komst í úrslit Söngvakeppninnar í fyrra.

„Ég tók eftir þessu og get 100% tekið undir það að hljómgæði í þessari útsendingu gáfu ekki rétta mynd af því hversu vel þú hljómar bæði live og á upptökum. Gott hjá þér að tala opinskátt um þetta,“ segir Júlía Hermannsdóttir úr hljómsveitinni Oyama.

Alltof algengt

„Flott hjá þér Hildur Kristín Stefánsdóttir. Þetta er því miður alltof algengt,“ segir Regína Ósk Óskarsdóttir, sem hefur margoft tekið þátt í Söngvakeppninni og var fulltrúi Íslendinga í Eurovision árið 2008 ásamt Friðriki Ómari.

Tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir segir að henni hefði fundist hljóðblöndunin slæm á öllum lögunum á undankvöldinu síðastliðið laugardagskvöld.

„Ég hef verið með þitt lag á heilanum síðan ég heyrði það fyrst og það hefði sko aldeilis verið gaman að sjá það í betri hljóðgæðum. Mér fannst aðallega ekki heyrast í tónlistinni almennt nógu mikið og lögin frekar limp kareoki stemming fyrir vikið. En þú stóðst þig mjög vel.“

„Of mikið í húfi“

Daníel Óliver, sem var hluti af af tríóinu Cadem sem flutti lagið Fly í Söngvakeppninni árið 2015, segir tríóð hafa lent í hljóðblöndunarveseni á dómararennslinu.

„Mjög leiðinlegt! Starfsfólkið hjá RÚV gerir sitt besta og er mjög professional að sjálfsögðu en eitthvað þarf að breytast hjá Rúv. Það má ekki spara í gæðum! Of mikið í húfi fyrir okkur tónlistarmenn,“ segir Daníel Óliver.

Vona að næsta undankvöld verði betra

Hildur er ekki sú eina sem hefur kvartað undan slæmri hljóðblöndun. Flytjendur lagsins Heim til þín, Júlí Heiðar Halldórsson og Þórdís Birna Borgarsdóttir, hafa kvartað opinberlega. Benti hópurinn sem stóð að þeirra lagi á að ekki hefði verið jafnvægi í hljóðstyrk á milli aðalsöngvaranna tveggja og þá hefði lítið sem ekkert heyrst í bakröddum lagsins.

Hildur Kristín sagði við Vísi í gær að hún vonaðist til þess að formleg kvörtun hennar leiði til þess að seinna undankvöldið næstkomandi laugardag verði betra þegar kemur að hljóðblönduninni. Undir það tekur Þórdís Birna.

„Vona innilega að RÚV taki þetta til sín og að keppendur næstu helgi fái að uppskera í samræmi við vinnu síðustu mánaða,“ segir Þórdís Birna í umræðu við Facebook-færslu Hildar Kristínar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.