Innlent

Uggandi yfir nýjum eigendum Arion: Greiddu milljarða í sekt vegna mútumáls

Birgir Olgeirsson skrifar
Það er uggur í Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni vegna nýrra eigenda Arion banka.
Það er uggur í Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni vegna nýrra eigenda Arion banka. Vísir/Eyþór
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, skýtur á ríkisstjórn Íslands vegna frétta þess efnis að Goldman Sachs, ásamt þremur alþjóðlegum fjárfestingarsjóðum, hafi keypt samanlagt tæplega 30 prósenta hlut í Arion Banka af Kaupþingi eignarhaldsfélagi fyrir samtals ríflega 48,8 milljarða króna.

„Ríkisstjórnin algjörlega óundirbúin og stefnulaus um framtíð fjármálakerfisins. Hefur þó e.t.v. fengið að fylgjast með þessu á fundum í New York,“ segir Sigmundur Davíð á Facebook um þessar fréttir.

Hann spyr sig hvort þessi sala muni renna í gegn og klárast umræðulaust með samstilltum fréttatilkynningum eftir kvöldfréttir á sunnudegi.

„Sumum hefur þótt það merki um „paranoju“ þegar bent er á að þessir aðilar beiti ýmsum ráðum til að hámarka hagsmuni sína á Íslandi,“ skrifar Sigmundur sem deilir tilkynningu af vef dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna þar sem sagt er frá því að Och-Ziff Capital Management hafi játað sök í máli tengdu mútum í Afríku.

Och-Ziff Capital Management Group er einn af þessum þremur alþjóðlegu fjárfestingarsjóðum sem keyptu hlut í Arion banka en Och-Ziff á 6,6 prósent í gegnum Sculptor Investments s.a.r.l.

Greint var frá þessari niðurstöðu á vef dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna í september síðastliðnum en þar kom fram að Och-Ziff, sem staðsett er í New York, hafi gengist við því að greiða sekt upp á 213 milljónir dala, eða um 23 milljarða íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag, ásamt dótturfélagi sínu, OZ Africa.

Voru fyrirtækin til rannsóknar vegna áforma um að múta opinberum starfsmönnum í Kongó og Líbíu.

Í tilkynningu á vef dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna kom fram að Oxh-Ziff hefði í leit að gróða borgað margar milljónir í mútur til háttsettra embættismanna í Afríku.


Tengdar fréttir

Goldman Sachs og þrír sjóðir kaupa um 30 prósent í Arion banka

Í tilkynningu sem Kaupþing sendi frá sér rétt í þessu til Kauphallarinnar kemur fram að samkomulagið geri jafnframt ráð fyrir að fjárfestahópurinn fái kauprétt að 21,9 prósenta hlut til viðbótar sem verður á hærra gengi en greitt var fyrir hlutinn í lokaða útboðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×