Erlent

Segir ekkert benda til samsæris milli Trump og Rússa

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Engin sönnunargögn benda til þess að starfslið Donald Trump, Bandaríkjaforseta, hafi unnið með Rússum í aðdraganda forsetakosninganna þar í landi sem fóru fram í nóvember síðastliðnum. Þetta segir Devin Nunes, formaður þingnefndar fulltrúadeildarinnar um njósnamál. BBC greinir frá.

Ummælin lét Nunes hafa eftir sér í viðtali á Fox News sjónvarpsfréttastöðinni en næstkomandi mánudag mun yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar, James Comey, svara spurningum nefndarinnar.

Bandarískar leyniþjónustustofnanir hafa haldið því fram síðan í desember síðastliðnum að Rússar hafi gert tölvuárásir á bandarískar stofnanir og þannig haft áhrif á niðurstöður kosninganna, Trump í vil. Barack Obama, fyrrverandi forseti landsins, rak meðal annars 35 rússneska erindreka úr landi vegna þessa.

Þá hafa tengsl ráðamanna innan ríkisstjórnar Trump við Rússa einnig vakið upp spurningar en fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi hans, Michael Flynn og dómsmálaráðherrann Jeff Sessions höfðu báðir samskipti við rússneska ráðamenn á meðan kosningabaráttunni stóð. Flynn varð að segja sig frá störfum sínum og Sessions dró sig frá rannsókn alríkislögreglunnar á tölvuárásum Rússa.

Samkvæmt Nunes, sem sjálfur er Repúblikani, hefur nefndin ekki komist að neinum upplýsingum sem benda til þess að tengsl hafi verið á milli starfslið Trump og Rússa í aðdraganda kosninganna. Eini glæpurinn sem nefndin hafi uppgötvað sé leki á upplýsingum um starfslið Trump. Báðar þingnefndir sem fara með njósnamál, í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni fara nú með rannsókn á málinu.

Hvíta húsið hefur beðið báðar nefndir um að rannsaka fullyrðingar Trump um að Obama, hafi í valdatíð sinni, látið hlera turn hans. Nunes sagði í sama viðtali við Fox að stutt rannsókn á gögnum dómsmálaráðuneytisins hefði gefið það til kynna að engar slíkar hleranir hefðu átt sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×