Innlent

Leit að Artur lokið í dag: Ekki gert ráð fyrir leit á morgun

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá leit að Arturi fyrr í mánuðinum.
Frá leit að Arturi fyrr í mánuðinum. Vísir/Eyþór
Um áttatíu manns úr björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar tóku í dag þátt í leit að hinum 26 ára Artur Jarmoszko sem saknað hefur verið frá síðustu mánaðamótum. Leitinni lauk án árangurs á sjötta tímanum í dag og ekki er gert ráð fyrir því að leitað verði á morgun, nema eitthvað nýtt komi fram í málinu.

„Leitin sjálf hefur gengið mjög vel í dag en ekki borið neinn árangur,“ segir Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. „Það hafa engar nýjar vísbendingar borist.“

Í dag var leitað meðfram strandlengjunni frá Gróttu að Nauthólsvík, við Kópavogshöfn og á Álftanesi. Meðal annars var notast við báta, dróna og hunda.

Arturs hefur verið saknað frá síðustu mánaðamótum en vitað er að hann fór í bíó í Laugarásbíó kvöldið sem hann týndist, síðan niður í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann sést á öryggismyndavélum taka út fé úr hraðbanka og að lokum tengist sími hans netinu í Kópavogi síðla kvölds. Síðan hefur ekkert til hans spurst.

Málið er rannsakað sem mannshvarf. Nánast útilokað er talið að Artur Jarmoszko hafi farið af landi brott með hefðbundnum leiðum.


Tengdar fréttir

Artur fór í bíó kvöldið sem hann hvarf

Leit að Arturi Jarmoszko, 25 ára pólskum karlmanni sem ekkert hefur spurst til í tvær vikur, hefur enn engan árangur borið en um tuttugu björgunarsveitarmenn leituðu hans í dag. Lögregla hefur fengið þónokkrar ábendingar frá almenningi undanfarinn sólarhring og fjölskylda Arturs hefur látið pólsk lögregluyfirvöld vita af hvarfi hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×