Støjberg birti mynd af sjálfri sér á Facebook á þriðjudag þar sem hún sést haldandi á tertu með dönskum fána, tölunni 50 og ávöxtum og hefur ráðherrann nú sætt gagnrýni fyrir birtingu myndarinnar.
„Í dag náði ég í gegn 50. breytinguna til að herða stjórn á innflutningi fólks. Þessu verður að fagna!“ sagði ráðherrann.
Á samfélagsmiðlum hafa margir gagnrýnt ráðherrann fyrir myndina og segja hana ósmekklega. Støjberg segir þó í samtali við Ekstrabladet að það sé fullkomlega eðlilegt að fagna pólitískum sigrum.
Skopmyndateiknari Politiken hefur birt mynd á Twitter af stúlku á flótta án handleggja við hlið Støjberg með textanum „Engir handleggir – engin terta“.
#støjberg #dkpol pic.twitter.com/pNrl3lelkl
— ytournel (@ytournel) March 15, 2017
Støjberg bendir á að meirihluti danska þingsins hafi greitt atkvæði með þessari hertu innflytjendastefnu og að með henni megi auka framlög til hjálparstarfs.
„Ég hef margoft sagt að við ætlum að takmarka innflutning fólks, og þar sem þetta hefur nú tekist, þá getum við lagt milljarð [danskra] króna í hjálparstarf á nærsvæðum. Þannig að ef ég starfaði hjá Rauða krossinum þá myndi ég fagna því að milljarður króna bætist við,“ segir Støjberg við Ekstrabladet.