Erlent

Flokkur forsætisráðherrans fær flest atkvæði samkvæmt útgönguspám

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Frjálslyndiflokkkur Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, mun fá flest þingsæti samkvæmt útgönguspám í Hollandi. Þar var kosið til þings í dag, en Frelsisflokkur Geert Wilders er í öðru sæti ásamt tveimur öðrum flokkum.

Frjálslyndiflokkurinn fær, samkvæmt spánum, 31 sæti á þingi. Frelsisflokkurinn og tveir aðrir fá nítján sæti. Alls eru 150 þingsæti í boði. Núverandi ríkisstjórn Hollands er samsteypustjórn Frjálslyndaflokksins með Mark Rutte forsætisráðherra og Verkamannaflokksins.

Útgönguspár byggja á viðtölum við kjósendur þegar þeir koma úr kjörklefum.

Sjá einnig: Frjálslyndir bæta við sig fylgi á síðustu metrunum í Hollandi

Geert Wilders leiðtogi og reyndar eini meðlimur Frelsisflokksins og aðrir sem bjóða sig fram í nafni flokksins hafa verið ráðandi í umræðunni fyrir kosningarnar með áherslum sínum á banni við Kóraninum, moskum og almennri andúð á múslimum. Hann boðar einnig þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina að Evrópusambandinu.

Talið er að síðustu tölur muni ekki birtast fyrr en á milli klukkan þrjú og fjögur í nótt.


Tengdar fréttir

Rutte varar kjósendur við boðuðum aðgerðum Wilders

Hollenskir kjósendur velja sér þing í dag. Hinn umdeildi Geert Wilders virðist ætla að styrkja stöðu flokks síns, en kemst varla í ríkisstjórn þar sem enginn annar flokkur telur hann stjórntækan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×