Erlent

Íslendingar senda 16,5 milljónir króna til Jemen

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rauði krossinn á Íslandi hefur átt í samstarfi við Alþjóða Rauða krossinn og aðstoðað við verkefni í Suður-Súdan og Sómalíu og þekkir því vel til aðstæðna í þessum ríkjum.
Rauði krossinn á Íslandi hefur átt í samstarfi við Alþjóða Rauða krossinn og aðstoðað við verkefni í Suður-Súdan og Sómalíu og þekkir því vel til aðstæðna í þessum ríkjum. Rauði krossinn
Rauði krossinn á Íslandi tók í gær ákvörðun um að senda um 16,5 milljónir króna til Jemen í neyðaraðstoð vegna alvarlegs fæðuskorts. Jemen er það ríki sem býr við hvað verst mannúðarástand í heiminum öllum, en ástandið þar hefur ekki verið mikið til umfjöllunar undanfarið að því er fram kemur í tilkynningu frá Rauða krossinum.

 

Samhliða hefst neyðarsöfnun fyrir Suður-Súdan og Sómalíu vegna alvarlegs fæðuskorts og yfirvofandi hungursneyðar, en þegar hefur verið lýst yfir hungursneyð á afmörkuðu svæði í Suður-Súdan. Uppskerubrestur og fæðuskortur eru vegna óreglulegra rigninga og langvarandi þurrka en vopnuð átök sem geisað hafa í þessum löndum hafa einnig sín áhrif.

Rauði krossinn á Íslandi hefur átt í samstarfi við Alþjóða Rauða krossinn og aðstoðað við verkefni í Suður-Súdan og Sómalíu og þekkir því vel til aðstæðna í þessum ríkjum. Hjálparbeiðnir hafa verið sendar út frá Alþjóða Rauða krossinum þar sem landsfélög um allan heim voru beðin um að styðja við aðgerðir fyrir fólk sem býr við fæðuskort og hungur og tók Rauði krossinn ákvörðun um að svara því neyðarkalli.

 

„Ástandið er afar slæmt og við verðum að bregðast við og styðja við þessi samfélög. Rauði krossinn á Íslandi hefur verið að byggja upp m.a. heimili fyrir munaðarlaus börn í Sómalíu og færanlega heilsugæslu og auk þess sent sendifulltrúa til Suður-Súdan sem hafa starfað þar við heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. barna- og mæðravernd. Núna þurfum við að gera enn meira og aðstoða fólk sem stendur frammi fyrir gríðarlegum erfiðleikum vegna fæðuskorts. Ég hef fulla trú á að Íslendingar sýni samstöðu og hjálpi bræðrum okkar og systrum, bæði í Sómalíu og Suður-Súdan. Hvert framlag skiptir mjög miklu máli og getur sannarlega bjargað lífi,“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

 

Hægt er að styrkja neyðarsöfnunina með því að senda SMS í númerið 1900 með orðinu TAKK og fara þá 1900 krónur af símreikningi. Auk þess er hægt að borga með AUR appinu í númer 123 788 1717. Einnig er hægt að leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×