Erlent

Segir að Trump gæti hæglega fært sönnur á meintar hleranir Obama

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
McCain vill meina að eitt símtal dugi til þess að gera hreint fyrir dyrum Obama.
McCain vill meina að eitt símtal dugi til þess að gera hreint fyrir dyrum Obama. vísir/getty
John McCain, fyrrverandi forsetaefni repúblíkana, telur að Donald Trump Bandaríkjaforseti gæti hæglega aflað sönnunargagna til þess að gera út um meintar hleranir Baracks Obama á símabúnaði Trumps í aðraganda forsetakosninganna. Þetta sagði hann í samtali við CNN.

Í byrjun mars sendi forsetinn frá sér röð tísta þar sem hann sakaði Obama um að hafa komið fyrir hlerunarbúnaði á heimili hans í Trump-turninum.

Í kjölfarið upplýsti hann fjölmiðla um að hann óskaði eftir því að þingið hæfi rannsókn á málinu.

Trump hefur hins vegar ekki getað rennt stoðum undir staðhæfingu sína með haldbærum sönnunargögnum.

Sjá einnig: Vill sjá sönnunargögn um meinta hlerun Obama á símum Trump

„Ég hef enga ástæðu til þess að trúa því að ásakanirnar eigi við rök að styðjast en ég tel einnig að forsetinn gæti gert út um málið á augabragði,“ sagði McCain.

„Það eina sem hann þarf að gera er að taka upp tólið og hringja í forstjóra CIA og spyrja hvað gerðist,“ bætti hann við.

Talsmenn Obama hafa lýst því yfir að forsetinn fyrrverandi vísi ásökununum á bug og kalla eftir sönnunargögnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×