Erlent

Rúss­lands­stjórn sakar stjórnar­and­stæðinga um lög­brot og að hvetja til of­beldis

Atli Ísleifsson skrifar
Á annað þúsund mótmælenda voru handteknir í Moskvu í gær.
Á annað þúsund mótmælenda voru handteknir í Moskvu í gær. Vísir/AFP
Rússnesk stjórnvöld hafa sakað stjórnarandstæðinga í landinu um að hvetja til lögbrota og ofbeldis. Á annað þúsund mótmælenda voru handteknir í Moskvu og víðar í gær. Þeim hefur nú flestum verið sleppt eftir að hafa verið gert að greiða sekt.

Dmitri Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, segir ljóst að einhverjum ungum mótmælendum hafi heitið endurgreiðslu fjárhæðar, kæmi til þess að þeir fengju sekt fyrir mótmæli sín. Peskov sagði þó að hlustað yrði á skilaboð mótmælenda sem ekki hafi gerst brotlegir við lög.

Leiðtogi stjórnarandstöðu landsins, Alexei Navalny, var í hópi hinna handteknu og var hann leiddur fyrir rétt í morgun. Þar ítrekaði hann spillingarásakanir sínar á hendur forsætisráðherranum Dmitri Medvedev.

Mikill fjöldi fólks kom saman í Moskvu, Pétursborg, Vladivostok, Novosibirsk, Tomsk og fleiri borgum á sunnudag til að mótmæla forsætisráðherranum sem þeir saka um spillingu.

Bæði Bandaríkjastjórn og Evrópusambandið hafa fordæmt fjöldahandtökurnar og segja mótmælendur hafa fullan rétt til að lýsa yfir óánægju með stjórnvöld með þessum hætti.

Í frétt BBC kemur fram að mótmæli gærdagsins séu þau fjölmennustu í landinu frá mótmælunum 2011 og 2012.

Navalny hvatti til mótmæla eftir að hann sagði Medvedev eiga glæsihýsi, snekkjur og vínekrur og að opinber laun hans hefðu á engan hátt getað staðið straum af því öllu. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×