Erlent

Allt að 1000 mótmælendur handteknir í Rússlandi í dag

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rússneska lögreglan hefur í dag handtekið allt að þúsund mótmælendur sem komu saman um allt land til að mótmæla spillingu í rússneska stjórnkerfinu. Fréttaskýrendur segja mótmælin beinast einna helst að Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Meðal þeirra handteknu er leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Aleksei Navalny, sem var handtekinn í Moskvu þar sem þúsundur höfðu komið saman í stærstu mótmælum í landinu í 5 ár.

Mótmælin í höfuðborginni voru í formi friðsællar kröfugöngu meðfram aðalverslunargötu borgarinnar. Var það gert til að koma í veg fyrir að lög um samkomur yrðu brotin en rússneska lögreglan hefur lagaheimild til að skerast í leikinn ef hún telur of stóran kyrrstæðan hóp hafa safnast saman.

Sambærileg mótmæli fóru fram í um 99 borgum allt landið, allt frá Vladivostok í austri til Kaliningrad í vestri, að sögn skipuleggjenda.

Mótmæli sem þessi fátíð

Öll nema 17 þessara mótmæla hafa yfirvöld sagt vera ólögleg. Í Moskvu reyndu einhverjir mótmælendur að hefta för lögreglubifreiða sem varð til þess að þyrlur og óeirðarsveitir voru ræstar út. Þrátt fyrir margar harkalegar handtökur segja miðlar vestanhafs, en rússnesku ríkismiðlarnir fjalla lítið um málið í dag, að vinnubrögð lögreglunnar hafi verið að mestu verið eftir bókinni.

Mótmælin eru þau stærstu í landinu síðan árið 2012 en mótmæli gegn stjórnvöldum, sérstaklega ef þau beinast gegn Pútín sjálfum, eru afar fátíð í landinu.

Navalny hefur lengi verið harður gagnrýnandi forsetans og var hann handtekinn sem fyrr segir í höfuðborginni í dag. Fjölmargir mótmælendur reyndu að losa hann úr haldi lögreglunnar en á Twitter-síðu sinni í dag segir Navalny að honum líði vel og að skoðanasystkin hans ættu að halda mótmælunum áfram.

Skipuleggjendum mótmælanna og lögreglu ber ekki saman um fjölda þeirra sem handteknir voru í dag. Lögreglan segir þá vera um 500 talsins en mótmælendur segja þá vera minnst tvöfalt fleiri.

Hér að neðan má sjá myndbönd frá mótmælunum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×