Erlent

Trump afhenti Merkel reikning upp á 300 milljarða dollara

Kjartan Kjartansson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti afhenti Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, „reikning“ upp á meira en 300 milljarða dollara á fundi þeirra fyrr í þessum mánuði. Reikningurinn var fyrir fé sem forsetinn taldi Þjóðverja „skulda“ NATO fyrir að verja þá.

Breska blaðið The Sunday Times hefur þetta eftir heimildarmönnum innan þýsku ríkisstjórnarinnar. Ráðherra sem blaðið ræðir við segir framkomu Trump yfirgengilega.

„Hugmyndin með því að gera slíka kröfu er að ógna hinum aðilanum en kanslarinn tók þessu með ró og mun ekki svara ögrunum af þessu tagi,“ hefur blaðið eftir ráðherranum.

Ítrekað hefur komið fram í fjölmiðlum að svo virðist sem að Trump skilji ekki hvernig fjármálum NATO er háttað. Hann hefur margoft fullyrt að Evrópuríki séu ekki að leggja sitt af mörkum til NATO og að sum þeirra, eins og Þýskaland, „skuldi“ NATO og Bandaríkjunum.

Viðmið NATO er að aðildarríkin leggi 2% landsframleiðslu sinnar til varnarmála. Aðeins nokkur aðildarríki NATO standast það viðmið. Aðildarríkin greiða Bandaríkjunum hins vegar ekki fyrir landvarnir og ákveða Bandaríkin sjálf hversu miklu fé þau verja til hernaðarsamstarfsins.


Tengdar fréttir

Segir Þýskaland ekkert skulda Bandaríkjunum

Varnarmálaráðherra Þýskalands segir Donald Trump fara með staðlausa stafi þegar hann segir Þýskaland skulda Bandaríkjunum og NATO stórfé fyrir varnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×