Erlent

Rússneskir stjórnarandstæðingar handteknir

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn handtaka ungan mann á mótmælum í miðborg Moskvu í dag. Yfirvöld veittu ekki heimild til mótmælanna.
Lögreglumenn handtaka ungan mann á mótmælum í miðborg Moskvu í dag. Yfirvöld veittu ekki heimild til mótmælanna. Vísir/EPA
Tugir mótmælenda voru handteknir á mótmælum sem leiðtogi stjórnarandstöðunnar hvatti til víða um Rússland í dag. Krafa mótmælenda var afsögn Dmitrís Medvedev, forsætisráðherra, vegna spillingar.

Washington Post segir að mótmælin í dag séu þau umfangsmestu í Rússlandi frá því að götumótmæli áttu sér stað árin 2011 og 2012 í kjölfar ásakana um kosningasvindl. Yfirvöld veittu ekki leyfi fyrir flestum mótmælunum.

Stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexei Navalní hvatti til mótmælanna í kjölfar ásakana hans um að Medvedev hafi sankað að sér eignum í krafti stöðu sinnar, þar á meðal vínekrum, lúxussnekkjum og íburðarmiklum villum að andvirði meira en milljarði dollara.

Rússneska ríkissjónvarpið þagði þunnu hljóði um mótmælin sem Navalní segir að hafi farið fram í fleiri en áttatíu borgum og bæjum um allt Rússland samkvæmt frétt Reuters.

Navalní, sem stefnir á forsetaframboð á næsta ári, hefur sjálfur verið rannsakaður vegna meintra fjársvika og fjárdráttar. Hann segir rannsóknirnar runnar undan rifjum pólitískra andstæðinga. Hlaut hann dóm fyrir fjárdrátt árið 2013 en Mannréttindadómstóll Evrópu taldi að hann hefði ekki notið sanngjarnrar málsmeðferðar.

Hæstiréttur Rússlands fyrirskipaði í nóvember að réttað skyldi aftur yfir Navalní. Hann var sakfelldur fyrir fjárdrátt og dæmdur í fimm ára fangelsi í síðasta mánuði. Dómurinn gerir honum ókleift að bjóða sig fram til forseta samkvæmt rússneskum lögum.

Uppfært 12:16:Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því að Alexii Navalní hafi verið handtekinn í mótmælum í Moskvu. Mótmælendur hafi reynt að koma í veg fyrir að Navalní væri fluttur burt í lögreglubíl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×