Viðskipti innlent

FME mun kanna orðspor hluthafa í Arion banka

Heimir Már Pétursson skrifar
Fjármálaeftirlitið mun meðal annars kanna orðspor þeirra sem eiga hlut í Arion banka og hvort hugsast geti að þeir sem keyptu hlut í bankanum um helgina eigi sameiginlega það mikið að þeir geti talist virkir hluthafar nú þegar. Þá hvílir sú skylda á Arion að upplýsa fyrir helgi hverjir eiga meira en eitt prósent í bankanum.

Forstjóri Arion banka fór á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun til að ræða sölu Kaupþings á um 29 prósenta hlut í Arion banka til Goldman Sachs og þriggja vogunarsjóða. En fulltrúar Fjármálaeftirlitsins munu mæta á fund nefndarinnar á föstudag vegna málsins. Það telst virk eign í fjármálastofnun ef eignarhaldið fer í tíu prósent eða meira, en tveir vogunarsjóðanna eiga nú 9,99 prósenta hlut í Arion.

Jón Þór Sturluson aðstoðarforsetjóri FME segir ekkert benda til að aðilar séu sameiginlega komnir yfir tíu prósenta mörkin, þótt allir þessir aðilar séu að fjárfesta í sama fyrirtækinu.

„Þá er það ekki það sem skiptir máli þegar litið er til þess hvort að þetta séu tengsir aðilar. Það er spurning hvort það séu eignatengsl á milli þeirra eða önnur slík tengsl. Við höfum ekki ástæðu til að ætla að svo sé núna. En við munum án nokkurs vafa hafa tækifæri til að kanna það nánar,“ segir Jón Þór.

En þessir aðilar eiga eftir að senda FME nánari upplýsingar þar sem þeir hafa orðið sér út um frekari kauprétt þannig að þeir verða virkir hluthafar innan skamms með um 51 prósenta hlut í Arion.

Lög um fjármálastofnanir gera ráð fyrir að Arion upplýsi um alla eigendur sem eiga eitt prósent eða meira í bankanum innan fjögurra daga frá tilkynningu um kaupin. Jón Þór segir að FME muni upplýsa ef það meti að einhver sé óhæfur til að eiga virkan eignarhlut í bankanum. En í lögunum er líka gert ráð fyrir að orðspor hluthafa sé gott.

Þannig að það þarf væntanlega að kanna orðspor þessara aðila líka en einn þessara aðila hefur ekki á sér neitt sérstakt orðspor?

„Það er eitt af þeim skilyrðum sem þarf að kanna í slíku ferli. Bæði orðspor fyrirtækisins sem slíks og þeirra sem stýra fyrirtækinu. Við tjáum okkur ekki um það fyrirfram hver niðurstaðan úr slíku yrði.“

En það er eitt af því sem verður skoðað?

„Að sjálfsögðu, já,“ segir Jón Þór Sturluson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×