Viðar Örn Kjartansson segir að honum líði vel í Ísrael, þar sem hann hefur raðað inn mörkum með Maccabi Tel Aviv að undanförnu.
Viðar er alls kominn með ellefu mörk í 24 leikjum í öllum keppnum með Maccabi og kominn með alls 15 mörk í 24 leikjum í deildarkeppninni, þar sem hann er markahæstur.
„Liðsfélagarnir segja að þetta sé eitt erfiðasta landið til að aðlagast. Maður er dæmdur strax á fyrstu æfingunni,“ sagði Viðar Örn í samtali við Vísi.
„Þetta byrjaði mjög vel hjá mér en svo kom lægð, bæði hjá mér og liðinu. En árið 2017 hefur verið frábært og allt búið að ganga upp. Ég er mjög sáttur með það,“ sagði hann enn fremur.
Viðar tekur undir að sjálfstraustið sé í góðu lagi hjá honum og að honum líði eins og að hann geti skorað í hverjum leik. „Framherjar nærast á því. Allt verður auðveldara þegar sjálfstraustið er mikið og það má segja að það sé í góðu lagi núna.“
Hann gerir engar kröfur um sæti í byrjunarliðinu og leyfir þjálfurunum um að velja það. En hann vonast auðvitað til þess að fá tækifæri þegar Ísland mætir Kósóvó í Albaníu á föstudagskvöldið.
Fyrr í vetur var Viðar Örn orðaður við Zenit í Rússlandi, lið sem spilar reglulega í Meistaradeildinni.
„Jú, auðvitað kitlar það en ég er hjá flottum klúbbi núna. Við erum í öðru sæti í deildinni og komnir í undanúrslit í bikar. Vonandi tökum við þessa tvo titla og svo sjáum við til hvað gerist.“
Fótbolti