Nokkra athygli vakti þegar Chris Coleman valdi hinn 17 ára gamla Ben Woodburn, leikmann Liverpool, í landsliðshóp Wales fyrir leikinn gegn Tékklandi í undankeppni HM á föstudaginn.
Woodburn varð yngsti markaskorari í sögu Liverpool þegar hann skoraði í sigri liðsins á Leeds United í enska deildarbikarnum í lok nóvember á síðasta ári. Woodburn hefur alls komið við sögu í sjö leikjum á þessu tímabili.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist hissa að Coleman hafi ekki haft samband við hann vegna valsins á Woodburn.
„Ég var hissa á þessu. Ég veit ekki hvernig þetta gengur fyrir sig hérna,“ sagði Klopp.
„Þetta er ekki gagnrýni en ég hélt ég fengi símtal þegar svona ungur leikmaður er valinn. Hann verður að læra og bæta sig. Núna eru tveir þjálfarar ábyrgir fyrir honum,“ bætti Þjóðverjinn við.
Wales, sem fór alla leið í undanúrslit á EM í fyrra, er í 3. sæti síns riðils í undankeppni HM.
Enski boltinn