Innlent

Ný fjármálaáætlun: Einfaldara skattkerfi og aukin útgjöld til heilbrigðis-og menntamála

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, kynnir áætlunina í morgun.
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, kynnir áætlunina í morgun. vísir/anton brink
Benedikt Jóhannesson, fjármála-og efnahagsráðherra, kynnti fjármálaáætlun hins opinbera til næstu fimm ára, það er frá 2018 til 2022, á blaðamannafundi í fjármálaráðuneytinu í morgun.

Samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu verður sérstök áhersla lögð á uppbyggingu innviða og eflingu velferðarkerfisins. Stjórnvöld hyggjast einfalda skattkerfið, auka útgjöld til heilbrigðis- og menntamála og greiða hratt niður skuldir.

Markmið stjórnvalda er „að skapa hagfelld skilyrði fyrir vaxtalækkun, og mynda þannig rými til að aukinna útgjalda og lægri skatta.

Á tímabilinu verður unnið að því að vega á móti þenslu í hagkerfinu, stuðla að sátt á vinnumarkaði, taka á gengisstyrkingu og efla opinbera þjónustu og styrkja innviði,“ eins og segir í tilkynningu.

Stærstu útgjaldaliðir fjármálaáætlunar eru heilbrigðis-og velferðarmál en gert er ráð fyrir að uppsafnaður raunvöxtur útgjalda til heilbrigðismála verði 22 prósent á tímabilinu og 13 prósent til velferðarmála.

Á meðal þeirra verkefna sem ríkisstjórnin hyggst ráðast í er að byggja nýjan Landspítala, stytta biðlista, lækka kostnað sjúklinga, hækka greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi og hækka frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara í skrefum. Þá á að stíga markviss skref til að leysa húsnæðisvandann og lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð.

Hvað varðar umbætur á skattkerfinu þá á að auka skilvirkni kerfisins og einfalda það. Eins og greint hefur verið frá hyggst ríkisstjórnin fella flestar tegundir ferðaþjónustu undir almennt þrep virðisaukaskatts en breytingin mun taka gildi þann 1. júlí á næsta ári. Með þessari aðgerð myndast svigrúm til þess að lækka í kjölfarið almennt þrep virðisaukaskatts úr 24 prósentum í 22,5 prósent en sú breyting mun taka gildi þann 1. janúar 2019.

Kolefnisgjald verður tvöfaldað og „áfram unnið að útfærslu heildstæðs kerfis grænna skatta. Áður lögfestar eða áformaðar skattkerfisbreytingar taka gildi á tímabilinu, þar á meðal vörugjald á bílaleigubíla, samsköttunarákvæði og lækkun bankaskatts,“ segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins en hana má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×