Erlent

SpaceX tókst að endurnýta eldflaug

Kjartan Kjartansson skrifar
Falcon 9-eldflaugin á Canaveral-höfða fyrir geimskotið í kvöld.
Falcon 9-eldflaugin á Canaveral-höfða fyrir geimskotið í kvöld. SpaceX/Twitter
Endurnýtt eldflaug SpaceX kom gervihnetti á braut um jörðina og lenti mjúklega aftur í kvöld. Þetta er í fyrsta skipti sem tekist hefur að endurnýta eldflaug.

Markmið athafnamannsins Elons Musk sem á SpaceX með því að lenda eldflaugum og endurnýta þær er að draga verulega úr kostnaði við geimskot. Fyrirtækinu tókst að lenda fyrsta þrepi Falcon 9-eldflaugar í fyrsta skipti í fyrra. Í kvöld var hins vegar fyrsta tilraunin til þess að nota eldflaug öðru sinni.

„Þetta er virkilega frábær dagur, ekki bara fyrir SpaceX heldur allan geimiðnaðinn og hann sannar að eitthvað sé hægt sem margir sögðu að væri ómögulegt,“ sagði Musk eftir að eldflaugarþrepið lenti aftur heilu og höldnu á prammanum Of Course I still Love You samkvæmt Spaceflight Now.

Eldflauginni var skotið á loft kl. 22:27 að íslenskum tíma. Þremur mínútum síðar slökkti fyrsta þrep eldflaugarinnar á sér og losaði sig frá efra þrepinu. Eldflaugarþrepið lenti á prammanum kl. 22:35.

Farmur eldflaugarinnar var SES-10-gervihnötturinn. Honum var komið á braut um jörðina um kl. 23.


Tengdar fréttir

Lentu eldflaug í fimmta sinn

Fyrirtækið SpaceX sendi í nótt rúm tvö tonn af birgðum til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×