Innlent

Óljóst hvernig ný höfn snýr við taprekstri Granda á Akranesi

Svavar Hávarðsson og Sveinn Arnarsson skrifa
Erfiður tími fer nú í hönd hjá landvinnslufólki á Akranesi enda varað við bjartsýni. 93 eiga á hættu að vera sagt upp.
Erfiður tími fer nú í hönd hjá landvinnslufólki á Akranesi enda varað við bjartsýni. 93 eiga á hættu að vera sagt upp. vísir/eyþór
Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, svarar því ekki hvernig uppbygging nýrrar hafnaraðstöðu á Akranesi muni breyta því að taprekstur er af landvinnslu fyrirtækisins á staðnum – sem eru helstu rök fyrirtækisins fyrir því að leggja hana niður. Fyrr fengust ekki svör við því hversu mikið tapið af rekstri landvinnslunnar er.

Vilhjálmur segir það ekki breyta því að fyrirtækið sé tilbúið til að setjast niður með bæjaryfirvöldum og Faxaflóahöfnum á grundvelli tillögu bæjaryfirvalda sem kynnt var eftir að HB Grandi gaf það út að til stæði að leggja landvinnsluna niður þar sem 93 starfsmenn fyrirtækisins starfa í dag.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda
„Ég get ekki svarað þeirri spurningu eins og staðan er núna. Ég er búinn að samþykkja að fara í samræður við Akraneskaupstað. Ef ég hefði séð lausn á málinu, þá væri ég búinn að eiga samræður við Akraneskaupstað um það,“ segir Vilhjálmur aðspurður hverju HB Grandi yrði bættari með betri hafnaraðstöðu og bætir við: „Það er ekki auðvelt að standa í því að segja upp 93 einstaklingum á Akranesi og maður gerir sér það ekki að leik.“

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær sagði Vilhjálmur að Skagamenn ættu ekki að gera sér miklar vonir um að samræður fyrirtækisins við bæjaryfirvöld og Faxaflóahafnir myndu skila árangri.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, spurður að því hvort það væri ekki hrein örvænting að verja miklum fjármunum í þessa framkvæmd, segir að hafa beri í huga að það sé ekki bærinn sem sé að fara í þessa framkvæmd heldur Faxaflóahafnir.

„Það hefur verið stefna Faxaflóahafna að bæta aðstöðuna á Akranesi. Ég tel þessum fjármunum í bætta hafnaraðstöðu á Akranesi vel varið, og að hún verði arðbær ekki aðeins fyrir bæjarfélagið heldur einnig HB Granda og Faxaflóahafnir.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×