Innlent

Mistök að grípa ekki strax inn í og fara fram á óháða úttekt

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur óskað eftir því við ríkislögreglustjóra að gerð verði óháð úttekt á vinnubrögðum innan embættisins. Ástæðan er að gefin hefur verið út ákæra á hendur lögreglumanni sem sakaður er um að hafa beitt fanga ofbeldi í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í maí í fyrra.

Lögreglumanninum var vikið úr starfi í mars síðastliðnum, níu mánuðum eftir að meint atvik átti sér stað, líkt og Vísir greindi frá í gær. Í tilkynningu frá lögreglu segir að mistök hafi verið gerð í þeim efnum og að tryggja þurfi að mál sem þessi fái afgreiðslu strax. Hins vegar hafi ekki verið talin, í ljósi lagalegra fordæma, heimild til að víkja lögreglumanninum úr starfi þegar það kom til álita, meðal annars vegna þess hversu langt var liðið frá því að málið kom upp.

„Valdbeitingarheimildum lögreglu fylgir mikil ábyrgð og það felur í sér að öll mál sem varða misbeitingu þess séu skoðuð í kjölinn. Óháð úttekt á vinnubrögðum er liður í því enda mikilvægt að leiða í ljós hvort brotalamir kunni að vera fyrir hendi við meðferð slíkra mála hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu svo tryggja megi að þau fái rétta meðferð í framtíðinni,“ segir í tilkynningunni.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Jón H.B. Snorrason, sem var starfandi lögreglustjóri í fjarveru Sigríðar á þeim tíma sem atvikið kom upp, segjast ekki hafa vitað af atvikinu fyrr en í janúar síðastliðnum, eða sjö mánuðum eftir að það var kært. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari fullyrðir hins vegar að hafa upplýst lögreglustjóra um að rannsókn stæði yfir. Lögreglumaðurinn er meðal annars sakaður um að hafa skellt höfði fangans í gólfið í tvígang.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×