Innlent

Pólitíkusar keppast við að sverja Ólaf Ólafsson af sér

Jakob Bjarnar skrifar
Pólitíkusar, fyrrverandi sem núverandi, hugsa Ólafi Ólafssyni þegjandi þörfina og vilja sem minnst af honum vita.
Pólitíkusar, fyrrverandi sem núverandi, hugsa Ólafi Ólafssyni þegjandi þörfina og vilja sem minnst af honum vita.
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, sem kynnt var í gær, leiðir í ljós, svo ekki verður um villst, að potturinn og pannan í blekkingarleik sem var viðhafður þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar seldi Búnaðarbankann árið 2003 í miklu einkavæðingarferli var Ólafur Ólafsson athafnamaður.

Í raun liggur fyrir, í ljósi ofsagróða þeirra sem keyptu, að ríkið, sem þá var líkt og í dag rak harða einkavæðingarstefnu, færði kaupendum eigur ríkisins á silfurfati. Og hin svokallaða helmingaskiptaregla Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins var þar ráðandi faktor.

Valgerður sagði ekki ég

Í gær og í dag keppast hins vegar pólitíkusar við að sverja Ólaf Ólafsson af sér. Í kvöldfréttum ríkisútvarpsins sagði Valgerður Sverrisdóttir, þá verandi bankamálaráðherra, fastmælt að Ólafur hafi aldrei verið í Framsóknarflokknum. Vísir birti í gær nærmynd af Ólafi þar sem fram kemur svo ekki verður um villst að hann er skilgetinn sonur Sambandsins og kaupfélaganna – hann tilheyrir hinum svokallaða SÍS-hópi, sem er fjárfestingararmur Framsóknarflokksins. En, Valgerður vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið.

Ef marka má útskýringar Geirs og Valgerðar, þá bara vissu þau ekki, og gátu ekki, vitað hvaðan á sig stóð veðrið. Þau voru blásaklaus blekkt af Ólafi Ólafssyni.visir/gva
Þá hefur gömul frétt DV verið rifjuð upp í þessu sambandi, en þar segir frá því þegar Ólafur Ólafsson afsalaði sér veglegri húseign til Framsóknarflokksins. Hvað sem líður gildu flokksskírteini Ólafs er erfitt fyrir Framsóknarflokkinn að sverja hann af sér.

Sigurður sagði ekki ég

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, fór aðra leið í þeirri viðleitni að vilja þvo hendur sínar af Ólafi viðtali við Heimi Má Pétursson fréttamann í gær. Hann vill meina að hin raunverulegu fórnarlömb Ólafs séu, þegar allt kemur til alls, samherjar Ólafs og Framsóknarflokksins. Og vitnar þar, líkast til óaðvitandi, í Guðföðurinn þar sem fram kemur að hið hryggilega við svik séu að þau komi eðli máls samkvæmt aldrei frá óvinum.

Sigurður Ingi segir að í skýrslunni komi fram skýr mynd af því að allur almenningur og stjórnvöld hafi verið blekkt. En innan S-hópsins voru einstaklingar og félög sem tengdust mjög Framsóknarflokknum og Samvinnuhreyfingunni þegar hún var til.

Ef marka má Sigurð Inga þá er hið raunverulega fórnarlamb Ólafs Framsóknarflokkurinn og samherjar Ólafs í SÍS-hópnum.right
„Það er nú þannig að Framsóknarflokkurinn og ekki síst fyrrverandi forystumenn, forsætisráðherra og formaður; Halldór heitinn Ásgrímsson, hefur setið undir talsverðum ásökunum um blekkingar og samsæri. Nú kemur að í ljós að stjórnvöld voru blekkt,“ segir Sigurður Ingi.

Geir sagði ekki ég

Sigurður Ingi bendir jafnframt á að þetta sé gríðarlegur áfellisdómur yfir söluferlinu og gæta þurfi að því að þetta sé ekki að fara að gerast aftur við sölu bankanna nú. Hann talar þar á allt öðrum nótum og Valgerður, sem sagðist í gær hafa verið í áfalli þegar tjöldin féllu og Geir H. Haarde sendiherra í Washington, sem þá var fjármálaráðherra, undirstrikar, í samtali við Vísi í gær, að stjórnvöld hafi verið blekkt. Og það sem meira er, þau hafi verið algerlega varnarlaus gagnvart þeim blekkingarleik sem var viðhafður.

Davíð sagði ekki ég

Davíð Oddsson, sem þá var forsætisráðherra en nú ritstjóri Morgunblaðsins, hnýtir saman sýn Sigurðar Inga og Valgerðar þegar hann skrifar í leiðara blaðs síns í dag:

„Blekkingin, sem engu máli skipti, var svo viðkvæmt mál að aðrir fjárfestar í S-hópnum máttu, eins og fram kemur í skýrslunni, ekkert af henni vita. Þeir voru einnig dregnir á asnaeyrum eins og ríkisstjórnin og almenningur. Ólafur segir einnig að ríkið hafi ekki skaðast af blekkingarleiknum.“

Davíð vandar Ólafi ekki kveðjurnar og virðist samkvæmt því fátt eitt vilja af þeim ágæta manni vita.
Davíð vitnar þarna í yfirlýsingu sem Ólafur sendi frá sér í gær en þar bendir Ólafur á að ríkið hafi ekkert skaðast af þessum viðskiptum, því ríkið hafi fengið uppsett verð að fullu greitt. Þá situr eftir spurningin sem hlýtur að vera efst á baugi í dag: Hvers vegna var bankinn seldur á spottprís og hver ber ábyrgð á því? Væntanlega stjórnvöld þess tíma. En ekki er það á Davíð að skilja sem vandar Ólafi ekki kveðjurnar í pistli dagsins og vill sem minnst af þeim ágæta manni vita. Eða svo vitnað sé í leiðarann, sem að vísu er nafnlaus en flestir ætla að sé eftir Davíð.

Vilhjálmur Bjarnason sagði I told you so

„Ekki er rétt sem í er látið skína að stjórnvöld hafi verið grandalaus og að þau hafi engan veginn getað hafa séð fyrir að brögð væru í tafli. Vilhjálmur Bjarnason, nú þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er einn þeirra (fjölmörgu) sem fór mikinn á sínum tíma og benti á að hinn þýski banki mætti heita vafasamur.

Pólitíkin er skondin skepna og óvænt virðist sem svo að Dagur sitji uppi með Svarta-Péturinn sem er Ólafur Ólafsson -- heitasta kartaflan í íslenskri pólitík í dag.Vísir/Arnþór
Vilhjálmur hefur sjálfur bent á þetta á Facebooksíðu sinni þar sem hann vitnar meðal annars í þingræður Vigdísar Hauksdóttur og Valgerðar Sverrisdóttur, þar sem hann er atyrtur. Það voru með öðrum orðum uppi raddir sem vöruðu við því að hér væri ekki allt með felldu, þær voru ekki aðeins afskrifaðar sem marklausar, þeim var beinlínis mætt með þjósti.“

Dagur situr í súpunni

Sá stjórnmálamaður sem nú á í stökustu vandræðum með tengsl við Ólaf Ólafsson kemur úr óvæntri átt. Nefnilega Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur. Hann skrifaði nýverið undir samninga við Festir ehf. fyrir hönd borgarinnar um byggingu rúmlega 330 íbúða á Gelgjutanga. Seinna kom á daginn að það félag er í eigu Ólafs Ólafssonar. Á Facebook rignir yfir Dag áskorunum þess efnis að hann megi til með að rifta þeim samningum því ekki gangi að borgin sé í samkrulli við Ólaf, sem uppvís hefur orðið af svo miklum blekkingum í viðskiptum sínum.

Dagur á undir högg að sækja en hefur sagt að það sé verið að semja við alla lóðahafa í Vogabyggð. „Þeir samningar eru borginni í hag. Ekki síst til að tryggja framgang félagslegrar húsnæðisstefnu. Öllum lóðahöfum á svæðinu (sem eru um hundrað) er boðið upp á sambærilega samninga. Borgin getur ekki meinað einstökum lóðahöfum um slíka samninga eða mismunað við útfærslu þeirra. Eitt verður yfir alla að ganga,“ segir Dagur sem óvænt virðist sitja uppi með þennan Svarta-Pétur, heitustu kartöfluna í pólitíkinni í dag.


Tengdar fréttir

Geir um skýrsluna: "Dapurlegra en orð fá lýst“

Geir H. Haarde var fjármálaráðherra þegar hlutabréf í Búnaðarbankanum voru seld S-hópnum og staðfesti kaupin sem slíkur. Hann segir það "dapurlegra en orð fá lýst“ að stjórnvöld sem seldu þessa eign almennings í góðri trú og í samræmi við lagaheimildir, hafi verið blekkt varðandi aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×