Erlent

Segir enga pólitíska lausn í boði í Sýrlandi með Assad við völd

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. vísir/afp
Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Nikki Haley, segir að þar til forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, hafi verið komið frá völdum, sé engin pólitísk lausn í sjónmáli í Sýrlandi.

Í viðtali við fréttastofu CNN segir Haley að hún geti ekki útilokað að Bandaríkin muni beita sér með frekari hætti í Sýrlandi en eins og alkunna er, skaut bandaríski herinn 59 eldflaugum á flugvöll sýrlenska stjórnarhersins nú á dögunum, í kjölfar ásakana í garð sýrlenska stjórnarhersins um beitingu efnavopna gegn almennum borgurum.

„Það er ekki sá möguleiki til staðar að finna pólitíska lausn á deilunni á meðan Assad er enn við völd. Ef þú lítur bara á það sem hann hefur gert, að þá er mjög erfitt að sjá fyrir sér friðsama og stöðuga ríkisstjórn með hann innanborðs.“

Að sögn Haley telur hún að ríkisstjórnarskipti í Sýrlandi séu óumflýjanleg, „vegna þess að allir aðilar, í stjórn og stjórnarandstöðu hljóta að sjá að Assad getur ekki verið framtíðarleiðtogi landsins.“

Hún segir að stjórnarskipti í Sýrlandi sé ekki eina markmið Bandaríkjanna. Heldur sé það einnig að sigra hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið.

Ljóst er að stefnubreyting Bandaríkjanna í málefnum Sýrlands er algjör, en einungis í síðustu viku hafði umrædd Haley sagt á opinberum vettvangi innan Sameinuðu þjóðanna að það væri ekki lengur forgangsatriði Bandaríkjanna að koma Assad frá völdum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×