Innlent

Segir brotið á réttindum vegalausra barna

"Þetta er algjörlega óviðunandi," segir verjandi drengjanna.
"Þetta er algjörlega óviðunandi," segir verjandi drengjanna. vísir/bjartur
Talskona Barnaheilla – Save the Childern á Íslandi segir að brotið sé á réttindum vegalausra barna sem koma hingað til lands sem hælisleitendur, þar sem úrræði vanti fyrir þau. Hún segir brýnt að yfirvöld taki á málum þessara barna af festu og alvöru.

Greint var frá því á fimmtudag að tveir hælisleitendur á barnsaldri sem komu fylgdarlausir hingað til lands með Norrænu í september, dvelji einirá gistiheimili í Reykjavík. Lögmaður þeirra segir þá búa við óviðunandi aðstæður og gagnrýnir stjórnvöld fyrir að hafa lítil afskipti af þeim. Talskona Barnaheilla tekur undir þessa gagnrýni og segir að það vanti samstarf milli Barnaverndarnefndar og útlendingastofnunar og úrræði í þessari stöðu.

Sjá einnig:Barnavernd hefur lítil afskipti af tveimur hælisleitendum á barnsaldri: „Þetta er algjörlega óviðunandi“

„Við hjá Barnaheillum höfum auðvitað áhyggjur af þessu og við höfum í fjölmörg ár, hátt í tíu ár, bent á að málefni vegalausra barna á Íslandi eru ekki í góðum farvegi og það er í raun og veru ekki tekið á þeirra málum eins og annarra barna,“ segir Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri Barnaheilla.

Fylgdarlausum börnum hefur fjölgað mikið og aldrei hafa fleiri komið hingað til lands í leit að hæli. Engin sérstök úrræði eru til staðar, en Margrét segir að í mörgum tilfellum sé brotið á réttindum þessara barna.

„Já það er klárlega verið að því, það eru hér á landi börn sem eru búin að vera hérna í lengri tíma án þess að fá viðunandi úrræði og búa við aðstæður sem eru algjörlega óásættanlegar fyrir börn. EF við viljum betri heim og betra samfélag, þá gerum við það helst með því að fjárfesta í börnum, öllum börnum ekki bara sumum börnum. Við megum ekki mismuna börnum eftir stöðu þeirra, það er algjörlega klárt.“

Hún segir brýnt að ríki og sveitarfélög taki á málum barnanna.

„Margir aðilar eru að reyna að gera vel en það skortir samræmi á milli kerfa og að á þessu sé tekið af meiri festu og alvöru. Þetta er alvöru mál. Ef íslenskt barn væri í þessari stöðu, við myndum aldrei láta það vera í marga mánuði án þess að koma því í einhverskonar úrræði, fósturúrræði eða annað. Aldrei.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×