Innlent

Norsku skipi stefnt til hafnar vegna gruns um ólöglegar rannsóknir

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Mynd af Seabed Constructor sem tekin var um borð í varðskipinu Þór.
Mynd af Seabed Constructor sem tekin var um borð í varðskipinu Þór. Mynd/Landhelgisgæslan
Landhelgisgæsla Íslands ákvað í gær að stefna rannsóknarskipinu Seabed Constructor til hafnar vegna gruns um að það hefði stundað ólöglegar rannsóknir í íslensku efnahagslögsögunni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Skipið lagið úr höfn í Reykjavík 22. mars og hefur það haldið sig á afmörkuðu svæði um 120 sjómílur suðaustur af landinu.

Skipið er í eigu norskrar útgerðar en leigutakinn er skráður í Bretlandi. Þegar stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskaði skýringa á athöfnum skipsins fengust óljós svör og var því ákveðið að stefna skipinu til hafnar til að fá frekari skýringar.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNA, flaug að Seabed Constructor síðdegis í gær. Þá sigldi varðskipið Þór til móts við skipið og mætti því upp úr hádegi í dag.

Búist er við að skipin komi til hafnar í Reykjavík í fyrramálið og mun lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þá taka við rannsókninni. Tekin verður skýrsla af skipstjóranum og dagbækur og búnaður skipsins rannsakaður til að fá frekari vitneskju um athafnir þess að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×