Innlent

Útskriftarnemar í hjúkrunarfræði við HA ráða sig ekki á Landspítalann

Anton Egilsson skrifar
Útskriftarnemar í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri ætla ekki að starfa á Landsspítalnum að loknu námi í vor.
Útskriftarnemar í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri ætla ekki að starfa á Landsspítalnum að loknu námi í vor. Fréttablaðið/Vilhelm
Útskriftarnemar í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri ætla ekki að ráða sig til starfa á Landspítalanum að lokinni brautskráningu í vor miðað við þau launakjör sem þar standa til boða. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hjúkrunarnemar við Háskólann á Akureyri sendu frá sér í dag.

Í yfirlýsingunni lýsa hjúkrunarfræðinemari við Háskólann á Akureyri jafnframt yfir fullum stuðningi við 4. árs hjúkrunarfræðinema við Háskóla Íslands í baráttunni um bætt launakjör. Í febrúar síðastliðnum sendu hjúkrunarfræðinemar við Háskóla Íslands frá sér yfirlýsingu þess efnis í febrúar að þeir hyggðust ekki ráða sig til starfa á Landspítalanum að loknu námi í vor.

„Við förum fram á að menntun okkar og vinnuframlag verði metið að verðleikum og gerum því sömu kröfu og verðandi kollegar okkar um bætt launakjör.”

Byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga án vaktaálags og yfirvinnu eru rúmar 380 þúsund krónur á mánuði. Í yfirlýsingunni segir að launin séu ekki í samræmi við menntun, ábyrgð og vinnuálag hjúkrunarfræðinga. 

„Við teljum að launakjör hjúkrunarfræðinga séu almennt of lág og í engu samræmi við bæði menntun, ábyrgð og vinnuálag. Algeng byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum og víðar eru í kringum 380 þúsund fyrir 100% starfshlutfall. Í vaktavinnu ætti 80% starfshlutfall almennt að jafngilda 100% vinnu vegna síbreytilegs vinnutíma og vinnuálags. Þannig er vaktavinna metin í nágrannalöndum okkar."

Ekki verði bætt úr skorti á hjúkrunarfræðingum með þeim kjörum sem bjóðast í dag.

„Skortur á hjúkrunarfræðingum á Íslandi verður ekki bættur með núverandi launakjörum og vinnuumhverfi. Nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar hafa nú þegar leitað í önnur og betur launuð störf,” segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×