Innlent

Kom ekki til greina að selja í opnu útboði

Sveinn Arnarsson skrifar
Vífilsstaðaspítali er ekki með í kaupunum.
Vífilsstaðaspítali er ekki með í kaupunum. vísir/stefán
„Nei, það kom ekki til greina,“ segir Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, þegar hann var spurður hvort það hafi komið til álita að selja 200 hektara land Vífilsstaða í opnu útboðsferli.

Garðabær og ríkið hafa komist að samkomulagi um kaup hins fyrrnefnda á landinu. Hafa samningaviðræður verið í gangi milli aðila allt frá árinu 2014 en fóru almennilega á skrið í ágúst í fyrra.

Landið sem um ræðir er alls 202 hektarar í kringum Vífilsstaði og er söluverðið 558 milljónir króna. Til samanburðar var Hafnarfjarðarbæ gert að greiða rúmar 600 milljónir króna í eignarnámsbætur árið 2014 fyrir land í Kapelluhrauni sem var fjórðungi minna en þetta land.

Benedikt Jóhannesson
Krafa hefur verið uppi í samfélaginu um að ríkiseignir séu seldar í opnum gegnsæjum útboðsferlum eftir að hlutur ríkisins í Borgun var seldur í bakherbergjum í lokuðu ferli. Markmið með opnum útboðum og gegnsæi er að hámarka tekjur ríkisins af sölu eigna og fá hæsta mögulega verð fyrir eignirnar.

Benedikt segir ekki hægt að líkja þessu við Borgun. „Það er þannig að bæjarfélagið borgar fyrir þetta og svo er lóðasölunni skipt milli ríkis og bæjar. Þetta er því ekki þannig að við seljum landið og svo ekkert meira. Með þessu tryggjum við okkur fram í tímann,“ segir Benedikt.

„Við viljum að þetta land sé nýtt til að draga úr skorti á lóðum og íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel það mjög hollt fyrir markaðinn að framboðið verði í hlutfalli við eftirspurn eftir íbúðum. Einnig hefur Reykjavíkurborg horft til ríkislóða í borginni. Við höfum tekið því ágætlega að gera slíkt hið sama í borginni,“ segir Benedikt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×