Innlent

Fær milljón vegna tjaldvagns sem hvarf

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þetta er ekki tjaldvagninn sem hvarf.
Þetta er ekki tjaldvagninn sem hvarf. Vísir/Vilhelm
Víkurverki hefur verið gert að greiða eiganda tjaldvagns 720 þúsund krónur, auk 400 þúsund króna í málskostnað vegna tjaldvagns sem settur var í viðgerð og geymslu hjá fyrirtækinu. Tjaldvagninn hvarf og er enn ófundinn.

Tjaldvagninn var settur í viðgerð og viðhald til Víkurverks í ágúst 2015. Verkið dróst hins vegar og bauðst fyrirtækið til þess að geyma vagninn án kostnaðar og að viðgerð yrði lokið um áramótin.

Eiganda tjaldvagnsins var tilkynnt um að vagninn yrði tekinn úr geymslu 1. apríl 2016. Vagninn var tekinn úr geymslunni þann dag og gerði Víkurverk ráð fyrir því að vagninn yrði sóttur um það leyti, enda viðgerð lokið.

Þegar sækja átti vagninn, í júli 2016, kom hins vegar í ljós að vagninn var horfinn. Hvarfið var tilkynnt til lögreglu. Ekkert bólar þó á vagninum og er hann enn ófundinn.

Málsaðilum greindi á um það hvor þeirra hafði haft vagninn í vörslu sinni þegar hann hvarf. Byggði Víkurverk á því að sá sem átti vagninn hefði látið undir höfuð leggjast að sækja vagninn á umsömdum tíma, eigandinn hefði borið ábyrgð á honum eftir að vagninn var settu á útisvæði til afhendingar, þann 1. apríl.

Eigandi vagnsins taldi þó að Víkurverk bæri ábyrgð á vagninum, enda hafi hann verið í vörslu fyrirtækisins frá því að vagninn kom til viðgerðar, í ágúst árið 2015.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness segir að um verulegt aðgæslu- og andvaraleysi sem fella megi undir gáleysi stefna hafi verið að ræða og rekja megi orsakir hvarfs tjaldvagnsins til þessa.

Var Víkurverki því gert að greiða eiganda tjaldvagnsins 720 þúsund krónur í skaðabætur, auk málskostnaðar, 400 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×