Innlent

Segja meirihlutann leyna gögnum um ráðningu nýs sviðsstjóra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Arna Schram er nýr sviðsstjóri.
Arna Schram er nýr sviðsstjóri.
Borgarráð samþykkti í gær að ráða Örnu Schram sem sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Í bókun frá Sjálfstæðismönnum gagnrýna þeir að hafa ekki fengið upplýsingar varðandi ráðningu í starfið, það er matsblöð og greinargerð vegna ráðningarinnar.

„Hingað til hafa borgarfulltrúar fengið slík gögn afhent, óski þeir eftir því. Minnt skal á að borgarráðsmenn hafa skýlausan rétt á upplýsingum varðandi þau mál sem lögð eru fyrir borgarráð á því formi sem þeir óska eftir,“ segja Sjálfstæðismenn í bókun sinni.

Í bókun meirihlutans kemur fram að starfsumsóknir og mat á umsækjendum snerti viðkvæma persónulega hagi einstaklinga. Því sé heimilt að neita fulltrúum minnihlutans um þessi umbeðnu gögn. Auk þess hafi borgarráðsfulltrúar getað kynnt sér gögnin í tilteknu gagnaherbergi.

„Hingað til hafa borgarráðsmenn átt skýlausan rétt á því að fá afhent þau gögn sem þeir óska eftir vegna afgreiðslu mála í borgarráði. Hefur það gilt jafnt um trúnaðargögn sem önnur gögn,“ segja borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og ítreka að með því að neita þeim um afhendingu umræddra gagna sé tvímælalaust verið að takmarka aðgang borgarráðsmanna að upplýsingum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×