Innlent

Þörf á skýrari verkferlum í ferðaþjónustu

Benedikt Bóas skrifar
Þeir sem eru yfir málaflokknum eru að horfa í sitthvora áttina samkvæmt Ríkisendurskoðun.
Þeir sem eru yfir málaflokknum eru að horfa í sitthvora áttina samkvæmt Ríkisendurskoðun. vísir/gva
„Það þurfa að vera skýrari verkferlar og afgerandi stefna stjórnvalda enda stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar sem hefur rifið efnahaginn upp á rassgatinu undanfarin ár,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, um ferðaþjónustuna.

Ríkisendurskoðun benti á í nýlegu áliti sínu að margt sé enn óskýrt um skiptingu hlutverka innan ferðamála. Ábyrgð stofnana og afmörkun verkefna innan málaflokksins sé óskýr og Stjórnstöð ferðamála sé falinn hluti verkefna sem lög kveða á um að Ferðamálastofa skuli sinna. Skörun á verkefnum sé augljós þegar kemur að þróunar-, gæða-, skipulags-, markaðs- og kynningarmálum.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra.vísir/ernir
„Eins og allir sem hafa fylgst með þá er erfitt að ná utan um þennan málaflokk. Það á ekki að vinna sömu hlutina oft á mismunandi stofnunum,“ bætir hún við.

Í svari aðstoðarmanns Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur ferðamálaráðherra er ekki tekið undir áhyggjur Ríkisendurskoðunar enda hafi verið brugðist við ábendingum í flestum meginatriðum. Um skörunina segir í svarinu: „Þess vegna muni stofnunin hefja forkönnun stjórnsýslu­úttektar á stjórnsýslu ferðamála. Sú forkönnun er þegar hafin og hafa embættismenn úr atvinnuvegaráðuneytinu átt fundi með stofnuninni.“

„Landið á að vera í sparifötum fyrir okkur sjálf og fyrir okkar gesti. Það koma flestir til að skoða náttúruna og það er ekki einu sinni búið að taka ákvörðun um salerni,“ segir Lilja. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×