Þetta kom meðal annars fram á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis á miðvikudag, en Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, óskaði sérstaklega eftir opnum fundi nefndarinnar vegna þeirrar umræðu sem hefur verið síðustu misseri um mengun frá fyrirtækinu, ekki síst vegna kröfu íbúa Reykjanesbæjar um aðgerðir. Komu fyrir nefndina umhverfisráðherra, fulltrúar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og íbúa, forstjóri United Silicon og fulltrúi Umhverfisstofnunar.
Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, brást við spurningum Bryndísar Haraldsdóttur, þingkonu Sjálfstæðisflokksins, sem vildi fræðast um álitaefni vegna nálægðar iðnaðarsvæðis við íbúabyggð, eins og í tilfelli Helguvíkur og Reykjanesbæjar. Spurði Bryndís hvort eitthvað í skipulagslögum tæki á fjarlægðarmörkum og ef það væri óljóst hvort ekki væri ástæða til að skoða það sérstaklega. Þá hvort væri ekki ástæða til að banna að mengandi iðnaður væri svo nálægt íbúabyggð. Sigrún sagði að þær reglur sem um þetta gilda sé að finna í hollustuháttareglugerð, en þar segir að íbúðarhúsnæði „skal ekki vera á þynningarsvæði samkvæmt reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun“.

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra tók undir orð Sigrúnar um návígi íbúabyggðar við iðnaðarsvæðið. „Þetta er gríðarlegt áhyggjuefni,“ sagði Björt en fram hafði komið á fundinum að aðeins rúmur kílómetri er í beinni loftlínu frá iðnaðarsvæðinu að íbúabyggð í Reykjanesbæ, og þar á meðal til leik- og grunnskóla.
Þegar álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat verksmiðju United Silicon er skoðað kemur þetta skýrt fram, og fjallað var um þetta í Fréttablaðinu í apríl 2014. Þar segir að „hafa beri í huga að tiltölulega skammt er í nyrsta hluta þéttbýlisins í Reykjanesbæ og því brýnt að fylgjast vel með styrk helstu mengunarefna á svæðinu sem og mögulegum afleiddum áhrifum þeirra. Skipulagsstofnun telur nauðsynlegt að áætlanir um vöktun verði í starfsleyfi frá upphafi.“
Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær þá hefur Reykjanesbær breytt aðalskipulagi sínu sem útilokar frekari uppbyggingu mengandi iðnaðarstarfsemi en þegar hefur verið samið um í Helguvík.