Innlent

Vilja gera frið að vörumerki Norðurlanda

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tillögunni er beint til norrænu ríkisstjórnanna.
Tillögunni er beint til norrænu ríkisstjórnanna. Vísir
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefur lagt til að friðarviðræður verði gerðar að opinberu vörumerki Norðurlanda. Tillögunni er beint til norrænu ríkisstjórnanna.

Í tilögunni er lagt til að friðarviðræður verði liður í sameiginlegu átaki forsætisráðherranna til að vekja athygli á norrænum lausnum við hnattrænum áskorunum og að þeim verði tryggður mikilvægur sess í opinberu norrænu samstarfi.

Þetta gæti meðal annars orðið að veruleika ef löndin kæmu á fót sameiginlegu háskólanámi á framhaldsstigi á sviði friðarviðræðna, t.d. innan ramma Norrænu meistaranámsáætlunarinnar.

„Norræna ráðherranefndin hefur látið vinna greinargóðar úttektir á mörgum mikilvægum sviðum, svo sem sviðum öryggis-, heilbrigðis- og orkumála. Við teljum að vinna ætti samsvarandi úttekt á sviði friðarmála,“ segir forseti Norðurlandaráðs, Britt Lundberg.

Tillagan inniheldur ennfremur greinargerð um möguleikana á því að koma á fót skjalasafni um sáttamiðlun í einu Norðurlandanna. Þá er einnig bent á jákvæða reynslu af stöðu sjálfstjórnarsvæðanna á Norðurlöndum, Færeyja, Álandseyja og Grænlands.

Segir í tillögunni að sama líkan mætti nýta annars staðar í heiminum þar sem leysa þarf snúin ágreiningsefni.

Hugmyndin að því að vekja athygli á friðarviðræðum kom upphaflega frá flokkahópi miðjumanna í Norðurlandaráði, og hefur tillagan hlotið stuðning flokkahóps vinstri sósíalista og grænna og flokkahóps hægrimanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×