Innlent

Blái dagurinn í dag: Þörf á meiri fræðslu um einhverfu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Arnar Máni Vignisson er fimm ára patti og lét sig ekki muna um að gefa forseta Íslands spaðafimmu þegar þeir hittust á Bessastöðum í sunnudaginn. Arnar er einhverfur og fór ásamt hópi barna og aðstandanda þeirra á fund forseta til að vekja athygli á alþjóðadegi einhverfu.
Arnar Máni Vignisson er fimm ára patti og lét sig ekki muna um að gefa forseta Íslands spaðafimmu þegar þeir hittust á Bessastöðum í sunnudaginn. Arnar er einhverfur og fór ásamt hópi barna og aðstandanda þeirra á fund forseta til að vekja athygli á alþjóðadegi einhverfu. Vísir/ernir
Blái dagurinn er haldinn hátíðlegur hér á landi í fjórða skiptið í dag í tilefni af Bláum apríl sem er vitundarvakning um einhverfu og söfnunarátak sem samtökin Blár apríl standa fyrir.

„Þetta er í fjórða skiptið sem við höldum þetta og hefur stækkað ár frá ári. Þetta er í rauninni tvíþætt, annars vegar að vekja almenna athygli á einhverfu, hvetja fólk til að klæðast bláu í dag til að vekja athygli á málefninu, fræðast um einhverfu og annað sem felst í svona almennri vitundarvakningu, og hins vegar að safna fé til styrktar málefnum barna með einhverfu,“ segir Ragnhildur Ágústsdóttir, formaður Blás apríl í samtali við Vísi.

Í fyrra var safnað fyrir gerð fræðsluefnis á íslensku um einhverfu sem ætlað er börnum og var það frumsýnt á alþjóðlegum degi einhverfunnar á sunnudaginn á Bessastöðum þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og kona hans, Eliza Reid, tóku á móti einhverfum börnum og fjölskyldum þeirra í tilefni dagsins.

„Í kjölfarið var fræðsluefnið svo gert aðgengilegt á blarapril.is. Skólarnir hafa verið duglegir við að nýta Bláa daginn í að fræða börnin um einhverfu en þeir höfðu verið að kalla eftir góðu fræðsluefni á íslensku um málið fyrir yngri börn. Við réðumst því í gerð á slíku efni sem er aðallega hugsað fyrir yngri stigin í grunnskóla og jafnvel leikskóla. Það sem hefur þó komið okkur á óvart er að fullorðnir eru líka að nýta þetta til að fræðast um einhverfu og við höfum einnig fengið sterk og góð viðbrögð frá foreldrum barna sem eru í bekk með einhverfum börnum og haf nýtt þetta til að ræða málin við þau og fræðast,“ segir Ragnhildur.

Aðspurð fyrir hverju sé verið að safna í ár segir Ragnhildur að þörf sé á meiri fræðslu um einhverfu og því verði áherslan áfram á það.

„Við ætlum að safna fyrir áframhaldandi fræðslu. Ein hugmyndin er að gefa út meira efni en svo viljum við líka halda námskeið í samstarfi við sveitarfélögin og skólana um einhverfu. Við söfnuðum á sínum tíma fyrir námskeiði fyrir foreldra nýgreindra barna og höfum haldið það bæði í Reykjavík og á Akureyri og hefur það mælst mjög vel fyrir,“ segir Ragnhildur.

Hægt er að styrkja málefnið með því að hringja í númerið 9021010 og styrkja þannig um 1000 krónur eða með því að fara inn á blarapril.is og velja þar á milli mismunandi upphæða undir flipanum „Styrkja félagið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×