Innlent

Þórunn fer til starfa á sjúkrahúsi í Mósúl

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þórunn Hreggviðsdóttir er skurðhjúkrunarfræðingur
Þórunn Hreggviðsdóttir er skurðhjúkrunarfræðingur Mynd/Rauði krossinn
Þórunn Hreggviðsdóttir, sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi, hélt til Mósúl í Írak í dag þar sem hún mun starfa á sjúkrahúsi ásamt sameiginlegu skurðteymi Alþjóðaráðs Rauða krossins og finnska Rauða krossins.

Rauði krossinn á Íslandi hefur áður sent sendifulltrúa til starfa fyrir Alþjóða Rauða krossins í Írak, bæði í og við Mósúl sem og í höfuðborginni Bagdad.

„Síðan átök byrjuðu í Mósúl í október sl. hafa um 200.000 almennir borgarar þurft að flýja heimkynni sín og þúsundir hafa særst í átökunum. Alþjóða Rauði krossinn hefur stutt við sjúkrahús með mannafla í og við Mósúl síðan átök brutust út en sjúkrahúsin á svæðinu hafa ekki náð að sinna öllum þeim fjölda sem til þeirra hafa leitað eða haft yfir nægu fagfólki að ráða til að anna störfunum. Það er gott að geta sent út öfluga sendifulltrúa og veita aðstoð þar sem hennar er þörf“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi um verkefnið.

Rauði krossinn í Finnlandi hefur haft yfirumsjón með skurðstofuteymum sem verða við störf á tveimur sjúkrahúsum í Mósúl.

Rauði krossinn á Íslandi hefur undirbúið fleira heilbrigðisstarfsfólk úr röðum sendifulltrúa sinna til þess að fara til starfa í Mósúl þegar þörf verður á.

Þórunn er skurðhjúkrunarfræðingur og starfar í hlutastarfi á Landsspítalanum, dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund sem og við háskólasjúkrahúsið í Osló. Þetta er fyrsta ferð hennar á vettvang sem sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi en hún hefur búið og starfað víða um heim, m.a. í Senegal, Jórdaníu, Bosníu, Noregi og Moskvu og hefur mikla reynslu af alþjóðlegu starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×