Innlent

Síminn fær gagnaverslóð á 15 milljónir

Benedikt Bóas skrifar
Síminn hefur tryggt sér lóð á Hólmsheiði undir gagnaver.
Síminn hefur tryggt sér lóð á Hólmsheiði undir gagnaver.
Reykjavíkurborg hefur veitt Símanum vilyrði fyrir lóð við Hólmsheiði. Stærð og staðsetning lóðarinnar verður nánar ákveðin í deiliskipulagi en til skoðunar er að hámarksbyggingarmagn yrði 10 þúsund fermetrar. Borgar Síminn 1.500 krónur fyrir hvern byggingarfermetra eða 15 milljónir verði hámarksbyggingarmagn nýtt.  Síminn hefur sex ár til að ákveða hvort fyrirtækið ætlar að nýta sér vilyrðið um lóðina.  

Í greinargerð um gagnaverið segir að uppbygging slíkra gagnavera sé fjármagnsfrek og það sé mikilvægt að búa þannig um hnútana að auðvelt sé að stækka án þess að binda mikið fjármagn ef aðstæður síðar verða hagfelldar fyrir rekstur gagnaversins.

„Með þessu fyrirkomulagi er fjárbinding vegna viðbótarlóða í lágmarki og fyrirtækið hefur ráðrúm til þess að vaxa á eðlilegum hraða án þess að þurfa að skuldsetja reksturinn umfram efni. Fyrir Reykjavíkurborg er það mikilvægt að stuðla að nýsköpun og fjölbreyttum iðnaði innan borgarmarkanna og gera fyrirtækjum það kleift að vaxa á sama stað. Með þessu fyrirkomulagi myndast einnig hvatning fyrir fyrirtækið að kaupa fleiri lóðir af Reykjavíkurborg ef aðstæður þess bjóða upp á það,“ segir enn fremur í greinargerðinni 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×