Innlent

Höfuðkúpubrotnaði eftir slys á flutningaskipi

Anton Egilsson skrifar
Flutningaskipið sem hinn slasaði var staddur á var á leið inn til Akureyrar.
Flutningaskipið sem hinn slasaði var staddur á var á leið inn til Akureyrar. Vísir/Auðunn
Tilkynnt var um slys um borð í flutningarskipi sem statt var úti á Eyjafirði á leið inn til Akureyrar laust fyrir klukkan tíu í morgun. Þar hafði maður slasast á höfði og var með skerta meðvitund eftir að hafa fengið járnstykki í höfuðið.

Voru slökkvilið og lögregla ásamt lækni kölluð á vettvang í kjölfarið. Í ljósi aðstæðna var ákveðið að óska eftir að fá björgunarsveit til aðstoðar ef þörf væri á frekari aðgerðum við flutning. Ekki kom til þess að senda þyrfti bát á móti flutningarskipinu en því var siglt inn að Krossanesbryggju.

Maðurinn var með meðvitund þegar sjúkralið og læknir komu til hans. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar. Aðilinn var síðan fluttur til Reykjavíkur með sjúkraflugi en hann reyndist höfuðkúpubrotinn en er ekki talinn í lífshættu, samkvæmt lögreglunni á Norðurlandi eystra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×