Innlent

Heilbrigðismálin eru sett í fyrsta sæti

Sæunn Gísladóttir skrifar
Benedikt Jóhannesson kynnti áætlunina í gær.
Benedikt Jóhannesson kynnti áætlunina í gær. Vísir/Anton
 „Það sem ég er ánægðastur með er að við náum að auka útgjöld mikið til heilbrigðis- og velferðarmála sem voru okkar forgangsmál bæði í kosningabaráttunni og svo forgangsmál stjórnarinnar eftir að hún var mynduð,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra um hina nýju fjármálaáætlun ríkisins.

„Á sama tíma náum við líka að vera með afgang af ríkissjóði sem spornar við þenslu og auk þess náum við að borga niður skuldir ríkisins sem býr þá í haginn fyrir komandi tíma,“ segir Benedikt.

Í tilkynningu segir að miðað verði að því að skapa hagfelld skilyrði fyrir vaxtalækkun, og mynda þannig rými til aukinna útgjalda og lægri skatta. Benedikt ítrekar þó að á tímabilinu verði skattar ekki raunverulega lækkaðir. „Við erum með skattana nokkurn veginn í jafnvægi og heldur hærri á næsta ári heldur en verið hefur. Við erum með þessar tilfærslur í virðisaukaskattskerfinu, svo tölum við um það að við séum að horfa á það á seinni hluta kjörtímabilsins að lækka tryggingagjaldið en tilgreinum ekki hvernig það yrði og það verður að ráðast aðeins af aðstæðum,“ segir Benedikt.

Hann segir að heilbrigðis- og velferðarmálin verði sett í forgang. „Við erum að setja 20 prósent aukningu í heilbrigðismál og 13 prósent í velferðarmál. Við erum að setja milli 20 og 25 milljarða í viðbót í samgöngumálin frá fyrri áætlun. Það er verið að styrkja menntakerfið og menninguna. Nú erum við að deila út peningunum, en svo ætlum við að fara í átak til að gæta þess að skilvirkni í kerfinu aukist, svo við fáum sem mest fyrir peningana.“

Að sögn Benedikts mun aukinn hagvöxtur og minni vaxtagreiðslur standa straum af auknum útgjöldum. Lögð verður áhersla á að draga úr þenslu í hagkerfinu.

„Þessi lækkun á virðisaukaskattinum er innlegg í stöðug­leikann. Það minnkar þrýstinginn á kauphækkanir því menn ná þar vonandi kjarabót með því.  Þetta mun auka kaupmáttinn um milli 0,4 og 0,5 prósent.“

Sigurður Ingi Jóhansson, formaður Framsóknarflokksins.Vísir/Ernir
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, telur varasamt að menn séu um of að einblína á hraða lækkun skulda.

„Fjármálaáætlunin einkennist af þessari frábærlega góðu stöðu sem búið er í. Það sem við höfum verið að tala um, við Framsóknarmenn, er að við höfum áhyggjur af því að menn séu um of að einblína á hraða lækkun skulda á sama tíma og mér sýnist að aukningin, hvort sem er í heilbrigðismálum og sérstaklega samgöngumálum, verði mun hægari og minni en menn höfðu vænst. Það að skapa svigrúm til skattalækkana er sá þáttur í þessu sem mér finnst vera mjög sérkennilegur."

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, telur að ekki nægu fé hafi verið veitt til margra málaflokka.

„Stóru línurnar eru þær að við teljum að skorti fé til mjög mikilvægra málaflokka. Við teljum líka að sú tekjuöflun sem er boðuð, sem er í raun og veru bara hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, sé ekki skynsamlegasta leiðin til að styrkja tekjugrunn.

Við hefðum frekar viljað sjá skattlagningu á fjármagnið í samfélaginu og þá hópa sem best standa. Að vísu fögnum við hækkun kolefnisgjaldsins. Þessi áætlun gefur ekki þau fyrirheit að verði staðið við kosningaloforð. Við teljum það kolranga forgangsröðun að skapa skilyrði fyrir skattalækkun."

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir það valda vonbrigðum að ekki sé reynt að koma á meiri jöfnuði í áætluninni.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.Vísir/Stefán
„Það veldur okkur vonbrigðum að menn vilji ekki nota góðærið núna til að koma hér á félagslegum stöðugleika og meiri jöfnuði.

Við höfum líka áhyggjur af því að útgjaldaregla fjármálastefnunnar sem þessi áætlun byggir á gerir ráð fyrir því að svigrúm myndist við það að efnahagskerfið bólgni út, en ef fer að þyngjast fyrir fæti þá eru menn bundnir í báða skó og eru komnir í spennitreyju og hafa engin önnur vopn en taka upp hnífinn og skera niður. Við vitum á hverjum það bitnar."

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, gagnrýnir einnig áform um að skapa hagfelld skilyrði til lægri skatta.

„Miðað við þær umsagnir sem við fengum þá er mjög óvarlegt að vera að fara í skattalækkanir í hátindi hagsveiflu sem þrýstir undir þenslu og getur orðið mjög alvarlegt ef þetta getur stækkað þessa bólu sem við erum í. Við sáum í línuriti mismuninn varðandi þróun kaupmáttar og þróun húsnæðisverðs að hann er orðinn meiri núna en í kringum 2008. Þótt hún sé ekki eins skuldsett og hún var þá er munurinn uggvænlegur. Varðandi velferðarmálin er ég ekki búinn að sjá tölugrunninn. En það verður áhugavert að sjá hvaðan allur peningurinn kemur."


Tengdar fréttir

Kvöldfréttir Stöðvar 2 í beinni

Í kvöldfréttum okkar förum við ítarlega yfir það helsta í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×